Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[09:42]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að setja þetta mál á dagskrá. Í fyrsta lagi þá vil ég almennt segja um þetta: Það er svo að fjármagnstekjur jukust verulega hjá tekjuhæsta hópnum í fyrra og dreifing þeirra er mun ójafnari en almennt í launatekjuskalanum þannig að ég tel fulla ástæðu til að við fylgjumst mjög grannt með þessari þróun. Við hækkuðum hér fjármagnstekjuskatt á síðasta kjörtímabili um tvö prósentustig, um 10%. En við þurfum að ég tel, ef þessi þróun heldur áfram, að taka þetta til nánari skoðunar.

Þar sem ég fjallaði um í ræðu minni á flokksráðsfundi, góðri ræðu sem ég þakka hv. þingmanni fyrir að vitna í, er að kveðið er á um það í stjórnarsáttmála að regluverk í kringum tekjutilflutning verði endurskoðað til að tryggja að þau sem hafa eingöngu fjármagnstekjur reikni sér endurgjald, auk endurskoðunar á regluverki í kringum tekjutilflutning sem verður líka tekið til endurskoðunar. Um þetta er fjallað í stjórnarsáttmála. Það er frumvarp á uppfærðri þingmálaskrá, ég vek athygli hv. þingmanns á því, frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, þar sem lagðar verða til endurskoðaðar og einfaldari reglur um reiknað endurgjald í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi aðila í eigin rekstri með það að markmiði að varna mismunun í skattlagningu úttekta eigenda úr félögum. Þar er líka ætlunin að taka til skoðunar hvernig tryggja má að þau sem eingöngu hafa fjármagnstekjur greiði útsvar til sveitarfélaga, sem er réttlætismál að breyta, og við erum sammála um að það verði tekið til skoðunar. Þetta frumvarp er á dagskrá hér í lok vorsins.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur vissulega sagt að það sé ekkert um það í stjórnarsáttmála að hækka fjármagnstekjuskattinn, en ég lít á það sem réttlætismál að þau sem eingöngu hafa þessar tekjur leggi sitt af mörkum t.d. til sveitarfélaga og að skýrt sé kveðið á um það, eins og ég nefni, að það sé engin mismunun í skattlagningu innan þessa kerfis. Því munum við sjá breytingar (Forseti hringir.) á þessum málum. Við eigum hins vegar eftir að sjá nákvæma útfærslu á þeim.