Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[09:56]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég tel mig knúinn til að spyrja hæstv. forsætisráðherra sem leiðtoga þessarar ríkisstjórnar út í auðlindir þjóðarinnar og tekjur þjóðarinnar af þjóðarauðlindinni, sjálfum fiskimiðunum í kringum landið, gjöfulustu fiskimiðum heims. Í fjárlagafrumvarpinu er áætlað að tekjur ríkissjóðs vegna áfengisgjalds verði 25,5 milljarðar kr. Í frumvarpinu segir einnig að tekjur ríkissjóðs af veiðileyfagjaldi séu áætlaðar 8 milljarðar kr. Þetta þýðir að tekjur ríkissjóðs af áfengisgjaldi verða meira en þrefalt meiri en af veiðigjaldi, 25,5 milljarðar á móti 8 milljörðum. Áfengisdrykkja landsmanna skilar sem sagt þrefalt meiru í sameiginlega sjóði landsmanna en auðlindarenta og auðlindagjald af þjóðarauðlindinni.

Spurningin er þessi: Hvernig stendur á því að við getum ekki fengið meira í sameiginlegan sjóð landsmanna fyrir auðlindarentuna af sjávarauðlindinni en af áfengi? Getur hæstv. forsætisráðherra gefið þingheimi skýringu á þessum gríðarlega mun? Hér skila útgerðarfyrirtækin milljarða ef ekki tugmilljarða hagnaði ár eftir ár án þess að þjóðin fái nema brot af ábatanum. Ég hygg að forsætisráðherra verði að svara fyrir það hvers vegna þjóðin fær ekki sanngjarnt endurgjald af auðlindinni. Í ofanálag er svo kvótakerfi búið að rústa fleiri sjávarbyggðum en engu að síður má aldrei gera neitt fyrir strandveiðar og strandveiðimenn hinna dreifðu sjávarbyggða umhverfis landið sem eiga skýlausan rétt til strandveiða. Sá réttur byggist á búseturétti, mannréttindum, atvinnufrelsi og rétti til sjálfsbjargar.