Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:03]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Já, við hv. þingmaður spörum okkur kannski að eiga samtal um áfengismálin þar til þau verða hér til frekari umræðu, en hana skal ég taka með gleði og hef á henni sterkar skoðanir.

En hvað varðar Mannréttindastofnunina þá er það svo að þetta mál hefur verið til umræðu í töluverðan tíma, m.a. í tengslum við lögfestingu sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem gert er ráð fyrir slíkri sjálfstæðri stofnun. Parísarviðmiðin, eftir minni bestu vitund, gera ráð fyrir að slík stofnun sé ekki endilega undir tilteknu ráðuneyti heldur mögulega undir Alþingi, og því gæti það mögulega orðið tillagan þegar að þessu kemur. En niðurstaða mín var, þegar málaflokkurinn var færður yfir til forsætisráðuneytis, að það væri mjög mikilvægt að efla í raun og veru umræðuna um mannréttindi. Við þyrftum að fara í heildstæða stefnumótun, þannig að þetta snerist ekki bara um að setja á laggirnar stofnun heldur að við þyrftum að vinna kortlagningu á stöðu mannréttinda á Íslandi þar sem við gerum vel um margt.

En í öðrum þáttum þurfum við að gera miklu betur. Eitt lítið dæmi sem mig langaði að segja frá í stefnuræðunni en hafði ekki tíma er t.d. sá þáttur að við erum farin að nýta rafræn skilríki við alls konar verkefni í daglegu lífi. Það eru ekki öll sem geta nýtt þessi rafrænu skilríki. Nú erum við búin að kaupa Auðkenni, stjórnvöld hafa keypt Auðkenni, og ef unnið er að útgáfu formlegra, opinberra skilríkja þá þurfum við öll að geta nýtt þau. Þetta er mannréttindamál og bara eitt lítið dæmi um hvar við getum gert betur í þessum málum.

Hv. þingmaður spyr hér mjög skýrrar spurningar: Getur slík stofnun verið utan höfuðborgarsvæðisins? Svar mitt við því er að sjálfsögðu: Já. Auðvitað getur hún verið utan höfuðborgarsvæðisins. Það er hins vegar ekki komið að neinni ákvörðun um þau mál. Ég minni á að Jafnréttisstofa er á Akureyri og hefur getað sinnt sínu hlutverki með miklum sóma þótt hún sé utan höfuðborgarsvæðisins.