Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:17]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Mig langar að segja fyrst vegna orða hv. þingmanns almennt, varðandi stefnuna í fjárlagafrumvarpinu, að ég tel að við séum stödd á vandasömum og snúnum tímum, að við höfum tekið réttar ákvarðanir í gegnum heimsfaraldur. Auðvitað á síðan eftir að skoða þetta allt í ljósi sögunnar en ég tel að hin hraða endurreisn og viðspyrna sem við höfum séð sýni svo ekki verði um villst að það voru góðar ákvarðanir. Ég tel sömuleiðis að sú ákvörðun sem hér er tekin, um að hægja á hjólunum, skipti verulega miklu máli til að takast á við verðbólguna og ég ítreka að það er auðvitað risalífskjaramál fyrir almenning.

Hvað varðar banka og hvort eigi að selja þá eða ekki þá hefur verið, í fjárlagafrumvörpum frá árinu 2012, heimild til að selja hluti í Landsbankanum. Það kom inn þegar ég var í annarri ríkisstjórn með Samfylkingunni. Það hefur hins vegar verið afstaða Vinstri grænna um allnokkurt skeið að ríkið eigi að eiga Landsbankann, að við eigum ekki að selja hlut í Landsbankanum. Þess vegna hafa stjórnarsáttmálar, bæði sá síðasti og sá sem við störfum núna samkvæmt, kveðið á um það. Það er vegna þess að við teljum skynsamlegt að ríkið eigi einn banka. En það hefur líka verið okkar afstaða að við séum ekki í prinsippinu á móti sölu á Íslandsbanka. Hins vegar liggur það líka fyrir og hefur komið fram bæði hjá hæstv. fjármálaráðherra í gær og kemur þá fram hjá mér núna að að sjálfsögðu verður ekki haldið áfram með þá sölu fyrr en skýrsla Ríkisendurskoðunar liggur fyrir, fyrr en farið hefur verið ofan í síðustu sölu. Eins vil ég minna á að á þingmálaskrá hæstv. fjármálaráðherra er frumvarp um að breyta fyrirkomulaginu á því hvernig við höldum á eignarhaldi bankanna, þ.e. með Bankasýslu ríkisins. Það fyrirkomulag verði tekið til endurskoðunar eins og boðað var. Ég vil ítreka að það eru ákveðnir þættir sem þurfa að liggja fyrir áður en hægt er að taka nokkrar ákvarðanir um framhaldið. En í prinsippinu höfum við ekki lagst gegn þessari sölu og skrifuðum undir stjórnarsáttmála upp á hana.