Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:41]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að gera hér grein fyrir helstu málefnum sem eru á ábyrgðarsviði dómsmálaráðuneytisins. Það fer með ábyrgð á málefnasviðum dómstóla, almanna- og réttaröryggis og réttinda einstaklinga. Heildarútgjöld málefnasviðanna þriggja árið 2023 eru áætlaðar 56,9 milljarðar kr., lækka um tæplega 1,6 milljarða á föstu verðlagi sem svarar til 2,7% lækkunar. Þegar tekið er tillit til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum hækka útgjöldin um 335 millj. kr. eða sem svarar til 0,6%.

Á sviði dómstóla eru heildargjöld árið 2023 áætluð rúmir 3,7 milljarðar. Það er hækkun um 38 milljónir á föstu verðlagi. Þegar tillit er tekið til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum hækka útgjöldin um 142 millj. kr. á milli ára eða sem svarar 3,9%. Það eru uppi metnaðarfull áform um stafrænar umbreytingar hjá dómstólum í samstarfi við dómsmálaráðuneytið, m.a. í tengslum við áframhaldandi þróun réttarvörslugáttar. Í undirbúningi eru áform um lagasetningu um að sameina þá átta héraðsdómstóla sem eru í landinu í einn dómstól. Með þeirri sameiningu er hægt að samræma vinnubrögð og jafna álagið, nýta mannafla betur, skapa tækifæri til starfa óháð ólíkum þörfum fólks og bæta þjónustu úti um land og styrkja dómstólana sem staðsettir eru úti á landi.

Á sviði almanna- og réttaröryggis eru útgjöld áætluð rúmir 34,7 milljarðar og lækka um 1.143 millj. kr. á föstu verðlagi en að teknu tilliti til almennra launa- og verðlagsbreytinga lækka útgjöldin um 195 millj. kr. Raunbreytingar framlaga í einstaka málaflokkum eru í fyrsta lagi 304 millj. kr. aukning framlaga til bundinna verkefni en þar vegur þyngst 258 millj. kr. framlag til fjölgunar landamæravarða á alþjóðaflugvellinum í tengslum við innleiðingu nýrra Schengen-upplýsingakerfa og 113 millj. kr. framlag til aðstöðubreytinga á Litla-Hrauni en til lækkunar koma 90 millj. kr. tímabundin framlög. Í öðru lagi 575 millj. kr. niðurfelling tímabundinna framlaga. Þar ber hæst 337 millj. kr. vegna betri vinnutíma í vaktavinnu, 120 millj. kr. til að styrkja stöðu lögregluembættanna á landsbyggðinni og 145 millj. kr. til kaupa á björgunarbátum. Á móti kemur aftur inn í ramma 68 millj. kr. tímabundin lækkun ferðakostnaðar. Í þriðja lagi er 1.170 millj. kr. lækkun framlaga vegna aðhaldskröfu sem gerð er til málefnasviðsins og er af tvennum toga: Annars vegar 2% almenn aðhaldskrafa sem nemur 602 millj. kr. og er útfærð hlutfallslega niður á stofnanir og verkefni málaflokka málefnasviðsins, hins vegar 568 millj. kr. vegna sértækra aðhaldsaðgerða sem skiptast í 500 millj. kr. vegna hliðrunar framkvæmda við samhæfingarstöð viðbragðsaðila og 68 millj. kr. vegna tímabundinnar lækkunar ferðakostnaðar sem er gerður varanlegur. Í fjórða og síðasta lagi er það 298 millj. kr. hækkun framlaga í ný og aukin verkefni sem skiptast annars vegar í 164 millj. kr. framlög til fjölgunar nemenda í lögreglunámi á háskólastigi, til aðgerða gegn kynferðisafbrotum og gegn skipulagðri brotastarfsemi, og hins vegar 134 millj. kr. vegna uppfærslu fjárfestingaráætlunar um byggingu samhæfingarmiðstöð björgunaraðila.

Megináherslur ráðuneytisins síðustu árin á málefnasviði almanna- og réttaröryggis hafa verið að auka öryggis- og þjónustustig í löggæslu og landhelgi með skýrum markmiðum og mælikvörðum og koma á rafrænum flutningi gagna þvert á stofnanir réttarvörslukerfisins með áherslu á skilvirka og örugga þjónustuferla.

Hvað varðar löggæslusviðið eru í gildandi fjármálaáætlun áherslur stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að efla löggæslu þannig að mönnun hennar fylgi þörfum samfélagsins. Það er m.a. gert með átaki til fjölgunar nemenda í lögreglunámi á háskólastigi en það er mikill skortur á fullmenntuðum lögreglumönnum, og með auknum framlögum til að mæta aðgerðum gegn kynferðisafbrotum og skipulagðri brotastarfsemi.

Hjá Landhelgisgæslunni eru ákveðnir veikleikar til staðar í fjármögnun eins og fram kemur í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá því í febrúar í ár og við því er verið að bregðast í samvinnu við Landhelgisgæsluna um ákveðna úttekt og greiningu á hvar við getum gert betur. Að mínu mati verður að tryggja betur viðbragð og björgunargetu Gæslunnar í dag og tryggja rekstraröryggi.

Heildarkostnaður við endurbætur og uppbyggingu á Litla-Hrauni er áætlaður 1.862 millj. kr. og er það að fullu fjármagnað. Undirbúningur er hafinn að því að fara í þessar framkvæmdir sem munu leysa húsnæðisvanda fangelsisins og bæta alla aðstöðu fyrir heilbrigðisþjónustu og endurhæfingu fyrir allt fangelsiskerfið. Áætlað er að þessum framkvæmdum ljúki 2023.

Heildarútgjöld málefnasviðs um réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýslu eru áætluð 18.290 millj. kr. (Forseti hringir.)

Annað sem er mikilvægt fyrir okkur eru útlendingamálin og þar erum við með markmið, eins og rakið er. (Forseti hringir.) Við erum að takast á við mjög erfiðar aðstæður og erum að bregðast við því eins og hægt er við þær aðstæður.