Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:58]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég deili áhyggjum þeirra sem tala um löggæslumálin og stöðu þeirra og þá breytingu sem er að verða á því umhverfi sem lögreglumennirnir okkar, sem gæta öryggis borgaranna, búa orðið við í sínu starfsumhverfi. Þetta hefur gjörbreyst á mörgum árum. Það er rétt, sem hér kom fram, að málin hafa þyngst verulega. Þau eru allt öðruvísi, þau krefjast annarrar þjálfunar og tækni og þekkingar en við þekktum áður. Við sjáum líka aukningu á vopnaburði og mörg dæmi um slys hjá lögreglumönnum sem lenda meira en áður í átökum. Það er mjög dýrt fyrir embættin að missa fólk burt jafnvel vikum og mánuðum saman, en því miður eru allt of mörg dæmi um það vegna þess að lögreglan er að hluta til vanbúin til að takast á við þetta breytta umhverfi.

Eitt er að fjölga lögreglumönnum. Eitt er að styrkja embættin úti á landi. Það er gríðarlega mikilvægt. Við höfum sorgleg dæmi utan af landi á undanförnum árum þar sem viðbragð lögreglu er algerlega óásættanlegt, ekki bara borgaranna vegna heldur líka lögreglunnar vegna, þess fólks sem leggur sig í hættu fyrir okkur hin í sínum daglegu störfum. Þessu verður að breyta. En það er ekki svo einfalt að það sé bara hægt að moka fólki í embættin úti á landi. Það verða að fylgja því verkefni sem hægt er að vinna úr á þeim tímum þar sem minna álag er gagnvart öðru, en þannig að viðbragðið sé til staðar þegar eitthvað alvarlegt gerist, hvort sem það eru slys eða brotastarfsemi. Þetta er skipulagið sem við erum að vinna að. Þetta eru skipulagsbreytingarnar sem ég vitnaði til áðan. Til þess að styrkja lögregluembættin úti á landi þurfa stærri embættin og einhver miðlægur grunnur að liggja til grundvallar þannig að embættin úti á landi verði þátttakendur í stærri málum. Þannig getum við nýtt sem best fjármagnið og þannig getum við lagt spilin á borðið fyrir fjárveitingavaldið þar sem við getum bent á það hvert peningarnir fara, hvernig við munum styrkja þessa starfsemi. Það er það sem við höfum verið að vinna að síðasta hálfa árið og ég vona að það beri árangur í umræðunni um fjárlög næsta árs.