Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:00]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra fyrir greinargóð svör. Aftur að mönnun. Hér var nefnt áðan að stytting vinnuvikunnar hefði reynst minni embættunum mikil áskorun. Það hefur verið umræða um að þessari vinnutímastyttingu fylgi ekki fjármagn til embættanna til að geta framfylgt henni gagnvart starfsmönnunum og á sama tíma bitni það ekki á öryggi íbúa. Við tölum alltaf um styttri málsmeðferðartíma, vandaðri löggæslu, öryggi og fagmennsku, það er eitthvað sem við tölum mikið um. Það getur verið erfitt fyrir embættin að framfylgja þessum markmiðum sem m.a. koma fram í stjórnarsáttmála þegar fjármunirnir eru ekki alveg eins og við þyrftum að hafa þá. Við þurfum að gera betur og ef það er einhvern tímann sem við eigum að gera betur er það akkúrat núna þegar við sjáum að samfélagið okkar liggur svolítið undir, þegar við sjáum að við eigum öryggi okkar undir því að löggæslan sé í stakk búin að takast á við þessar áskoranir og til þess þurfa embættin peninga. Nú kom ráðherra inn á það í svari sínu að við yrðum að gera betur og verið sé að fara í skipulagsbreytingar. Ég er líka með áhyggjur af því og spurning mín er þessi: Hvaða aðgerðir hefur ráðherra undirbúið til að tryggja að niðurskurðurinn, þ.e. á framlaginu sem fjárlaganefnd kom með á þessu ári, hafi ekki áhrif á öryggi lögreglumanna í starfi eins og hæstv. ráðherra kom inn á í svari sínu áðan?