Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:32]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég ætlaði að gera að umtalsefni dómstóla landsins en geri það bara í seinni ræðu. Ég vil þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að vera hér með okkur og fara yfir sín málefnasvið núna þegar við erum að fara í gegnum fjárlögin. En áður en ég kem að dómstólunum þá langar mig aðeins að taka boltann sem var á lofti hér áðan um verndarkerfið og þau orð sem hér féllu um að við eigum svo sannarlega að hjálpa þeim sem raunverulega þurfa vernd. Í sömu andrá er síðan talað um að það sé verið að misnota þetta kerfi mikið. Mig langar að fá að vita það bara skýrt og skorinort hjá hæstv. ráðherra: Hvað liggur fyrir um þessa misnotkun? Hversu umfangsmikil er hún? Hvaða tölur, greiningar og annað eigum við til til að styðja fullyrðingar um að misnotkunin sé það mikil að einhver sérstök hætta sé í gangi, þótt við reynum að sjálfsögðu alltaf að koma í veg fyrir alla misnotkun? Í framhaldinu var líka farið að ræða um þá sem vilja koma hingað, ekki í gegnum verndarkerfið heldur bara til að vinna hér og starfa, en eru utan EES. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra talaði um að það væri nauðsynlegt að rýmka reglurnar og það hefur svo sem verið sagt áður og af fleiri ráðherrum. Mig langar að fá að vita hvað líður þeirri vinnu og hvernig við getum rýmkað þessar reglur. Mig langar líka að spyrja, af því að við erum að tala um þessa tvo hluti: Er ekki líka akkur í því að fá hingað til landsins fólk sem er í neyð utan úr heimi vegna þess að það kemur hingað líka og vill aðlagast samfélaginu, búa til verðmæti og vera með okkur, stofna jafnvel fyrirtæki, sinna sínum skyldum og leggja sitt til samfélagsins en vera ekki bara einhverjir þiggjendur í því? Það væri ágætt að fá hæstv. ráðherra til að bregðast aðeins við þessu og ég nota seinni ræðuna til að spyrja aðeins um dómstólana.