Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:43]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Já, það þarf enginn að velkjast í vafa um það þegar embætti ríkislögreglustjóra, og þeir sem standa í framlínu við móttöku þessa fólks, sérstaklega á Keflavíkurflugvelli og síðan í móttökunni sem heyrir undir félagsmálaráðuneytið og Vinnumálastofnun er með, þessi samræmda móttökumiðstöð — að í þessari yfirlýsingu er verið að vara við mjög alvarlegri stöðu og alvarlegri þróun. Það byggist einnig á upplýsingum sem berast erlendis frá um að við megum vænta mjög mikils fjölda. Við þessu hefur verið varað lengi. Ég hef ítrekað gert það á mismunandi vettvangi og þróunin er í þessa átt. Það er rétt, sem fram kom, að þetta snýst kannski fyrst og fremst um húsnæðismál. Þar kreppir skórinn, bæði í skammtímaúrræðum og langtímaúrræðum, og einnig má segja að aðstæður séu erfiðar. Við sjáum hvernig sveitarfélögin sem borið hafa mestan þungann af þessu, Hafnarfjarðarbær, Reykjanesbær og Reykjavík, eru hreinlega að kikna undan álaginu. Önnur sveitarfélög hafa hreinlega ekki húsnæði þannig að við erum komin á mjög alvarlegan stað. Við því verður að bregðast með einhverjum hætti. En það er heldur ekki einfalt vegna þess að lagaumhverfi okkar er þannig að það er mjög skýrt í þessum efnum. Það sem er kannski alvarlegast í þessu og ég hef mestar áhyggjur af er að í þessu mikla álagi er hópurinn mjög mismunandi og ég hef áhyggjur af því að sú þjónusta sem við þurfum að veita fólkinu, grunnþjónustan, ég er að tala um skóla og aðstæður fyrir barnafólk og slíkt, er bara þannig að það er ekki boðlegt og illviðráðanlegt að bæta úr.