Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:45]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Í þessum efnum blasir við að það er orðið þröngt um mjög víða hvað stuðningskerfi okkar varðar, að þau ráði við við þennan aukna fjölda. Að því er ráðherra þekkir til — og nú veit ég að hann hefur býsna góða þekkingu á þessum málaflokki — hefur verið framkvæmt eitthvert mat á því hvað hin ýmsu stoðkerfi ráða við hvað aukinn fjölda varðar? Þá er ég að tala um heilbrigðiskerfið. Ég er að tala um grunnskólana, fyrir börnin sem koma hér í þessum hópum. Ég er að tala um heilbrigðiskerfið. Ég er að tala um húsnæðiskerfið og þar fram eftir götunum. Hefur eitthvert slíkt heildstætt mat verið gert? Ég held að að hluta til hafi þetta verið skoðað hjá þeim sveitarfélögum sem hæstv. ráðherra nefndi, Reykjavík, Hafnarfirði og Reykjanesbæ, þegar þeir samningar voru gerðir á sínum tíma, sem hefur nú gengið eins og fréttir gefa tilefni til að ætla hvað umfang og álag á sveitarfélögin varðar. Deilir hæstv. ráðherra þeirri skoðun minni að það væri hollt fyrir okkur að vinna slíka vinnu? Ég veit svo sem ekki á vegum hvaða ráðherra slíkt yrði gert, mögulega forsætisráðherra, en mig langar að kalla eftir afstöðu hæstv. dómsmálaráðherra, hvort hann þekki til þess að slík vinna sé í gangi einhvers staðar innan kerfisins og hvort hann teldi skynsamlegt að ýta á að slík úttekt yrði unnin.