Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:47]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Forseti. Í sjálfu sér hafa menn verið að reyna að gera sér grein fyrir því hvernig þetta gæti þróast, þ.e. þessi fjöldi, hvaða fjöldi kemur til landsins á hverjum tíma og hversu viðráðanlegt það verður. Dómsmálaráðuneytið hefur ítrekað varað við þeirri þróun sem er í pípunum, varað við þeirri stöðu sem er að mínu mati mjög fyrirsjáanleg sem er að birtast okkur núna og er að verða illviðráðanleg að mörgu leyti. Ég held að við þurfum að spyrja okkur mjög krefjandi spurninga þegar kemur að þessu: Af hverju leitar hlutfallslega miklu fleira fólk til Íslands en annarra landa? Það er einfaldlega vegna þess að við erum með öðruvísi kröfur, öðruvísi móttökur en önnur lönd. Við getum öll alveg sett okkur í spor þess fólks sem er í erfiðum aðstæðum og er á þessu ferðalagi til að leita sér að betra lífi í mörgum tilfellum, koma sér undan ógnum og stríði og slíku, eins og Úkraínufólkið og fleiri. Við myndum auðvitað skoða þetta líka.

Við þurfum að spyrja okkur krefjandi spurninga nú þegar við horfum fram á þessa stöðu: Ætlum við þá að halda áfram algerlega á sömu braut? Hverjum kemur það til með að bitna á? Erum við með sömu þróun og við blasir að verður? Haustið er til að mynda ákveðinn uppskerutími í þessu þegar talað er um fjölda þeirra flóttamanna sem koma hingað, það hefur alltaf verið mest um flóttafólk á haustin og við erum bara í miðjum september í dag. Þurfum við ekki að hugsa til þess að við getum staðið við þær skuldbindingar sem lagaumhverfið setur okkur í móttöku þessa fólks? Þetta er ekki endilega spurning um fjármagn. Þetta er spurning um getu, um getu samfélagsins, innviði samfélagsins til að takast á við það. Það eru þeir sem eru að bresta. Húsnæðismál, félagsmál, heilbrigðismál, skólamál, það er þetta sem er brostið. Og sveitarfélögin geta þetta ekki. Við þurfum að spyrja okkur krefjandi spurninga.