Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:04]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að fara hér yfir stóra og mikilvæga málaflokka síns ráðuneytis. Það er auðvitað augljóst að þessi ríkisstjórn hefur haft augun á þeim málaflokkum sem undir hann heyra, enda viðkvæmir og það skiptir máli að hlúa vel að þeim. Það sést í þessu frumvarpi að þar er eðli máls samkvæmt svolítið um hækkanir á stórum póstum, þá ekki síst vegna fjölgunar t.d. elli- og örorkulífeyrisþega, það er 5 milljarða fjárhæð, ef ég man rétt, sem er auðvitað mjög stór póstur. Svo fara 2,5 milljarðar í lengra og hærra fæðingarorlof, sem er auðvitað ofboðslega dýrmætt jafnréttistæki og það er hækkun bóta til viðbótar við hækkanirnar sem áttu sér stað 1. júní til að verja viðkvæmustu hópana vegna verðbólgunnar. Ég held að í þessum stóru atriðum séum við á réttri leið þó að auðvitað sé alltaf mikilvægt að rýna nákvæmlega hvernig best er hægt að ná utan um þetta allt saman svo að vel sé. Mig langar að nota tækifærið og þakka ráðherra aftur fyrir að hafa komið lögum um sorgarleyfi áfram, sem ég held að sé mjög falleg viðbót við lagaflóru okkar.

Mig langar svona undir lok minnar fyrri spurningar að fá aðeins að heyra sjónarmið ráðherra um heildarsýn á þjónustu við eldra fólk og hvernig við getum best samþætt þjónustu og tryggt að eldri einstaklingar falli ekki milli skips og bryggju í heilbrigðiskerfinu og fái þjónustu við sitt hæfi, þar sem þau eru að sjálfsögðu jafn misjöfn og þau eru mörg.