Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:07]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Hildi Sverrisdóttur fyrir umræðuna hér í dag. Mig langar að koma einu að varðandi hækkun á ellilífeyris- og örorkugreiðslunum og fjölgun örorkulífeyrisþega. Það fór að draga úr þeirri fjölgun árið 2019 og allt fram á árið 2021 og við erum að sjá sömu þróun 2022. Á sama tíma, alveg þangað til 2021, fjölgaði fólki mikið á endurhæfingarlífeyri, vegna þess að fólk var frekar að fara yfir á hann en á örorkuna. En það að líka sé farið að draga úr fjölguninni hjá endurhæfingarlífeyrisþegum sýnir að það kerfi sem við erum að reyna að byggja upp, að koma fólki út á vinnumarkaðinn og styðja við það með endurhæfingu, er vonandi að byrja að skila árangri. Það eru gríðarlega mikilvæg skilaboð inn í endurskoðunarvinnuna í örorkulífeyriskerfinu. En hv. þingmaður spyr um þjónustu við eldra fólk og eitt af stóru verkefnunum sem við vinnum að á þessu kjörtímabili er einmitt endurskoðun á þjónustu við eldra fólk og þar erum við heilbrigðisráðherra í samstarfi og með öflugan starfshóp sem mun skila af sér til okkar efni í þingsályktunartillögu sem lögð verður fram á vorþingi. Þar horfum við einmitt til þess hvernig samþætta megi heimaþjónustu og félagsþjónustu, hvernig koma megi betur til móts við það að fólk geti verið lengur heima og draga úr þörf á innlögnum á hjúkrunarheimili og þeim tíma sem fólk er þar. Þetta mun bæði bæta lífskjör og þjónustu við eldra fólk og að öllum líkindum einnig spara okkur fjármagn í kerfinu.