Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:11]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Í mínum huga þá stöndum við hreinlega frammi fyrir því að eiga í samkeppni um fólk á milli ríkja vegna þess að Ísland er ekki eina landið þar sem fólk vantar inn í heilbrigðiskerfið eða það er skortur á sérfræðingum á öðrum sviðum. Þess vegna er þetta atriði sem hv. þingmaður nefnir að mínu viti mjög mikilvægt. Það er í gangi vinna og það eru reyndar þrjú ráðuneyti sem bera ábyrgð á vinnu sem snýr að atvinnuleyfum og atvinnumálum útlendinga. Það er háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, dómsmálaráðuneytið og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið. Við erum með starfandi starfshóp til að samþætta þessa vinnu þannig að við getum horft á þetta meira í samhengi. Ég er með frumvarp á þingmálaskrá núna sem tekur á einu af þessum málum og varðar það að auka svigrúm og skilvirkni í ráðningu erlendra sérfræðinga sem eru í nýsköpunar- og sprotageiranum. Það er kannski fyrsta skrefið. Varðandi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða þá er það eitthvað sem hefur verið í frumvarpi dómsmálaráðherra um útlendinga. En hvað varðar sérstaklega það sem snýr að fólki utan EES-svæðisins þá er það einmitt aðgerð í stjórnarsáttmála sem er á ábyrgð dómsmálaráðuneytisins. En við erum sem sagt að vinna saman í þessum stýrihópi eða starfshópi að þessu. Ég tek undir það að þetta er eitthvað sem við þurfum að horfa til, að fólk sem hingað kemur í leit að betra lífi, ef ég orða það þannig, ekki endilega alþjóðlegri vernd, hafi einhverjar leiðir til þess að geta tekið þátt á íslenskum vinnumarkaði. Ég vil kannski líka nefna það sem við höfum ekki rætt hér (Forseti hringir.) í þessari umræðu, að fólk utan EES-svæðisins sem hingað kemur í háskólanám hafi fleiri tækifæri að námi loknu til að setjast hér að.