Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:16]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni innleggið hér í dag og fyrir að vera óþreytandi í að vekja athygli á því að örorkulífeyriskerfið okkar er ekki nægjanlega gott. Þar er ég hjartanlega sammála þingmanninum, enda er það eitt stærsta áherslumál mitt sem ráðherra að vinna að endurskoðun og breytingum á því kerfi sem ég tel afskaplega mikilvægt. Þegar hækkanir verða um áramót sem miða við að tryggja að örorkulífeyrisþegar og endurhæfingarlífeyrisþegar haldi í við verðlagsþróun þá er það auðvitað jákvætt skref. Við þurfum hins vegar að stíga fleiri skref sem lúta að því samspili sem hv. þingmaður nefnir sem snýr m.a. að skerðingum, að því að það vantar meiri hvata til virkni inn í kerfið. Það höfum við hv. þingmaður rætt áður, t.d. hvata til að vinna á sama tíma, og við verðum að tryggja að þau sem ekki geta unnið hafi sómasamlega afkomu af þeim greiðslum sem koma úr ríkissjóði. Það er einfaldlega verkefni þessa vetrar í mínu ráðuneyti að vinna að þessu. Ég hef þegar boðað tvö frumvörp í haust, þar af eitt frumvarp eftir áramót, sem munu taka á þessum málum. Ég vonast til að við getum horft til þess að klára þá lagasetningu í vor þannig að frá og með 1. janúar 2024 séum við að horfa til mun einfaldara og sanngjarnara kerfis sem einmitt er ekki bútasaumur heldur verður búið að prjóna alla peysuna.