Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:22]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég dembi mér bara beint í það. Ég sé engin merki um það í fjárlagafrumvarpinu að til standi til að koma til móts við þarfir öryrkja af neinni alvöru og hvað þá við aðra viðkvæma hópa sem lifa í fátækt í samfélaginu. Kjör öryrkja hafa dregist aftur úr frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum. Þessi fjárlög eru ekkert að fara að rétta úr þeirri kjaragliðnun, því miður. Það er mikið vantraust öryrkja til stjórnvalda, skiljanlega. Þeir voru skildir eftir þegar kjör eldri borgara voru leiðrétt og bætt á sínum tíma og hafa þurft að lifa við vissar hótanir um að fá engar kjarabætur nema þeir séu til í að ganga inn í nýtt kerfi sem ekkert traust var á, sem var starfsgetumatið, sem ég vona að sé dautt.

Svo eru það ólöglegu búsetuskerðingarnar, loforð um afnám krónu á móti krónu skerðinga, sem varð að aurum á móti krónu skerðingum. Listinn er mjög langur, því miður. Það hefur verið alger trúnaðarbrestur gagnvart þessum skjólstæðingum hæstv. ráðherra og þetta er fólk sem býr við mikla og viðvarandi fátækt. Traust er gríðarlega mikilvægt, forseti, sérstaklega núna þegar ráðherra hyggst fara í allsherjarendurskoðun á lögum um almannatryggingar og sér væntanlega ávinninginn af því að hafa öryrkja með sér í þeirri vegferð í góðu samráði og góðu samstarfi. Þá skiptir traust máli til að tryggja að starfið fram undan verði sem farsælust. Þannig að spurning mín til hæstv. ráðherra er mjög einföld: Hvað ætlar ráðherra að gera til að endurheimta traust öryrkja? Nú er ég að tala um konkret aðgerðir. Hvað á að gera til að tryggja það að fá þennan hóp með? Hann verður að hafa traust á því að þessi vinna sem er fram undan (Forseti hringir.) verði til bóta fyrir öryrkja því að það er búið að svíkja þennan hóp fólks ansi oft, því miður.