Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:29]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að fá að fagna þessari umræðu við hv. þingmann vegna þess að ég held að við tölum ekki nógu oft um fátækt í samfélaginu almennt séð. Og nei, ég get ekki svarað spurningunni um hvað fátækt kostar samfélagið okkar. Ég tel að þær tölur séu ekki til, kannski að hluta til vegna þess að það eru mismunandi skilgreiningar til o.s.frv., en auðvitað væri hægt að reyna að setja einhvern verðmiða á það. Ég er sammála hv. þingmanni að það að uppræta fátækt er ekki bara jákvætt fyrir fólkið sem býr við fátækt heldur fyrir samfélagið allt, hvort sem við horfum á það samfélagslega eða efnahagslega. Ég myndi vilja, þar sem ekki er til stefna í málefnum fátæktar eða stefna gegn fátækt, að við myndum ráðast í slíka vinnu og er reyndar með það til skoðunar í ráðuneytinu hjá mér. Við eigum alveg fyrirmyndir sums staðar í löndunum í kringum okkur og það er eitt af heimsmarkmiðunum að uppræta fátækt, ekki bara í fátækustu ríkjum heims heldur líka í þeim ríkustu. Auðvitað eiga ríkustu ríkin meiri möguleika til að geta gert slíkt. Þannig að ég fagna þessari umræðu en mig langar að enda þetta á því að tengja þetta samt sem áður við örorkulífeyrisþega vegna þess að t.d. eru yfir 40% þeirra sem leita til umboðsmanns skuldara úr þeim hópi. Það eru minni líkur á að börn þess fólks mennti sig eða nái lengra áfram í námi o.s.frv., þannig að stóra málið okkar þar er að ráðast (Forseti hringir.) í þá heildarendurskoðun sem hér er boðuð og hana verðum við að vinna saman. Ég hlakka til að eiga þá umræðu nánar við hv. alþingismenn.