Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:45]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans svör. Ég vil bara fullvissa hann um að ég mun verða samherji hans í að taka vel á móti fólki. Það er mitt keppikefli að við virðum tilverurétt fólks og við eigum að reyna eins og kostur er að bæta aðstæður þeirra sem hingað leita. En mig langar að segja frá því að nýverið sendi meiri hluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá sér grein og í henni kemur fram að ríkisstofnanir hafi komið sér upp leiguhúsnæði sem rúmar á fimmta hundruð einstaklinga á flótta í þessu svokallaða Ásbrúarhverfi, sem er umfram þá 270 sem sveitarfélagið er að þjónusta. Það er algerlega ótækt að samráð ríkis og sveitarfélaga sé ekki betra og að ekki séu tekin til greina málefnaleg rök sem borist hafa frá Reykjanesbæ, segir m.a. í þessari grein. Eins og ráðherra nefndi eru Hafnarfjörður og Reykjavík einnig að sinna þessum málaflokki af miklum myndarskap en þessi þrjú sveitarfélög hafa verið að senda frá sér athugasemdir vegna þessarar stöðu. Ég spyr: Hvað þarf að gera til að önnur sveitarfélög axli þá samfélagslegu ábyrgð sem móttaka flóttamanna felur í sér? Ætlar ráðherra að beita sér fyrir því að fleiri sveitarfélög taki þátt í þessu mikilvæga verkefni? Hugsanlega er það gert með því að setja lög sem skylda þá sveitarfélögin til að axla þessa samfélagslegu ábyrgð.