Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:09]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er staðreynd og ég held að við viðurkennum það öll að stjórnvöld verða að bregðast við svo heilbrigðisstarfsfólk haldist í vinnu og hinir sem hafa yfirgefið heilbrigðisvettvanginn vilji snúa þangað aftur. Heilbrigðiskerfið verður ekki bætt nema ráðist sé í markvissar aðgerðir og það verður að byrja strax, jafnvel þó að ríkissjóður sé rekinn með halla. Skuldin sem annars hrannast upp verður miklu stærri og óviðráðanlegri og kemur fram í verri heilsu og lífsgæðum fólks sem þarfnast aðhlynningar og lækninga og kulnun heilbrigðisstarfsfólks og þeirra sem gefast upp vegna álags. Er hæstv. heilbrigðisráðherra ekki sammála því að aðgerðirnar sem þarf að ráðast í séu annars vegar að hækka laun heilbrigðisstarfsfólks, bæta vinnuaðstöðu, bæta líðan starfsfólksins og minnka álagið, minnka líkurnar á kulnun í starfi og mistökum vegna streitu og álags og hins vegar að byggja upp fleiri hjúkrunarrými og búsetuúrræði fyrir eldra fólk þannig að pláss losni á spítölum?

Þegar framleiðsla Landspítalans árið 2019 í svokölluðum DRG-einingum var skoðuð eftir aldurshópum kom í ljós að kostnaðurinn við hvern einstakling 60 ára og eldri var fjórfalt meiri en við einstakling 59 ára eða yngri. Við vitum öll að þjóðin er að eldast. Það kallar á aukna heilbrigðisþjónustu, fleiri heilbrigðisstarfsmenn og lausnir á vanda kerfisins til skamms og langs tíma og það kallar á aukin fjárframlög. Hvenær getum við fengið að sjá áætlanir um aðgerðir til að vinna á mönnunarvandanum? Hvenær getum við fengið að sjá þær tímasettar og kostnaðarmældar? (Forseti hringir.) Hvenær fáum við að sjá áætlanir um þetta? Er það núna eða á næstu árum?