Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:19]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið þótt ég hafi nú ekki fengið út úr honum dagsetningu. Það er mikilvægt að gamaldags hugsun komi ekki í veg fyrir skynsamlega uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu og ráðstöfun fjármuna og ég hvet hæstv. ráðherra til dáða í þessum efnum. Sjúklingarnir okkar eiga betra skilið og heilbrigðisstarfsfólki sömuleiðis.

Mig langar í seinni umferð að spyrja hæstv. ráðherra um málefni sem er mér mjög hugleikið, nefnilega um einstaklinga með vímuefnavanda í heilbrigðiskerfinu. Það er ánægjulegt að sjá breyttum viðhorfum fylgt eftir, m.a. með fjármagni sem fylgir skaðaminnkandi aðgerðum. Lækkun fjárheimilda vegna SÁÁ, Samhjálpar og til vinnu gegn fíknisjúkdómum rímar hins vegar ekki jafn vel við breytta nálgun. Það er ekki nóg að mæta á ráðstefnur og tala bara um meðhöndlun og fordómaleysi. Fólk, ungt fólk, er að deyja meðan það bíður eftir meðhöndlun og lyfjatengd andlát hafa aldrei verið fleiri. Það ætti að vera algjört forgangsmál hjá stjórnvöldum að efla og auka skilvirkar forvarnir, fræðslu og meðferðarúrræði, enda eru forvarnir og meðhöndlun fíknisjúkdóma besta leiðin til að draga úr vímuefnavandanum. Því spyr ég hæstv. ráðherra að því hvernig breyttum viðhorfum um meðhöndlun fíknisjúkdóma innan heilbrigðiskerfisins sé í raun mætt í þessum fjárlögum. Þingið hefur hlaupið undir bagga, m.a. með samtökum sem starfa í þessum geira. En hver er stefna hæstv. ráðherra til að koma þessum málum í fastari skorður?