Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Varðandi geðheilbrigðismálin þá vil ég meina að við höfum á undanförnum árum gert betur. Það þarf að gera miklu betur, ég átta mig vel á því, en við höfum gert betur blessunarlega og það er að verða mikil vitundarvakning fyrir því að gera betur og hvernig eigi að gera betur. Þegar ég segi gera betur þá hafa verið sett á fót geðheilsuteymi. Það er búið að setja til viðbótar inn í það sem þegar fer til geðheilbrigðismála. Eins og við þekkjum frá skýrslu ríkisendurskoðanda þá er það skilgreiningarverkefni sem við þurfum líka að fara í. Það er búið að setja hér framlög til viðbótar sem fara beint í þetta, m.a. biðlistana sem hv. þingmaður dró hér fram, í geðheilsuteymin, í sértækar aðgerðir, til að efla skólaheilsugæslu o.s.frv., það var það síðasta sem við vorum með inn í þetta. Þetta eru 2,2 milljarðar gagngert til að reyna að mæta þessum vanda betur.

Varðandi liðskiptaaðgerðir þá bind ég miklar vonir við vinnu aðgerðahóps sem ég skipaði á dögunum. Þar eru fulltrúar allra þeirra sem kunna og geta og þar með talið Klíníkin. Svo erum við með Sjúkrahúsið á Akureyri, á Akranesi og Landspítalann. Ég er þá bara búinn að fá alla sem kunna þetta. Hópurinn á að innleiða gæðaverklag sem er til mjög góð skýrsla um frá landlækni og þeir unnu og stóðu að m.a. og koma með hugmyndir að framtíðarfyrirkomulagi þannig að við getum farið að vinna markvisst saman, allir þessir aðilar, með einhvern biðlista sem allir þekkja þannig að það verði jafnræði og gagnsæi og að allir geti fengið þessa þjónustu á jafnræðisgrunni og greitt fyrir.