Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:46]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og langar að taka þetta aðeins lengra. Ég ætla að nýta smá af tíma mínum til að lýsa áhyggjum mínum yfir því hvað mér finnst þessi málaflokkur vera einhvern veginn neðarlega í forgangsröðinni. Það er gríðarlega fjölmennur hópur sem glímir við fíknivanda og þó að hópurinn sé innbyrðis ólíkur og þetta sé fólk í ýmsum stöðum og stéttum þá á hann það sammerkt að líða miklar þjáningar vegna veikinda sinna og eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni er dánartíðni há, þetta er fólk sem sækir sér ekki aðra heilbrigðisþjónustu, fer ekki til tannlæknis, kaupir sér ekki gleraugu. Mjög stór hluti þessa fólks býr við ofboðslega erfiðar aðstæður og þó að við höfum SÁÁ, sem er auðvitað sá staður hér sem er að vinna með þessum hóp, þá er þörfin mjög ólík. Hún er ólík eftir kynjum, ólík eftir aldri. Við þurfum bara að gera miklu betur. Eitt sem ég ætla að nefna er líka sú staðreynd að það tekur ekki endilega eitthvað við eftir þau úrræði sem eru í boði. Við höfum engar almennilegar reglur um áfangaheimili eða annað.

Ég ætla að nota þessar síðustu sekúndur til að nefna að í frumvarpinu er fjallað um vinnu gegn fíknisjúkdómum og því er vert að spyrja hvort sú vinna sé komin á veg og hvað hafi komið út úr þeirri vinnu sem vísað er til í frumvarpinu.