Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:55]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er auðvitað mjög há tala, 60–70% launakostnaður. Við sjáum það svo sem líka að launakostnaðurinn er að verða 60% af rekstri flestra sveitarfélaga. Mig langar að minnast á vinnutímastyttinguna sem hafði í för með sér talsverðar breytingar inni á þessum stofnunum, m.a. hefur hún aukið á það sem kallað hefur verið mönnunarvandi. Fólk hættir að vinna fyrr og þá þarf bara að ráða einhverja aðra í staðinn. Mér skilst að á Landspítalanum einum sé staðan sú að þetta hafi búið til skort upp á 200 starfsmenn í það heila, þegar allt er tiltekið. Ég ætla ekki að taka ábyrgð á þessari tölu en mér hefur verið sögð þessi tala. Er búið að gera ráð fyrir fjármunum til að mæta þeim breytingum sem fylgja vinnutímastyttingu?

Síðan eru auðvitað kjarasamningar fram undan þar sem við munum væntanlega sjá verulegar breytingar eiga sér stað og síðan erum við líka að kljást við mönnunarvanda. Mönnunarvandi þýðir að það vantar fólk. Þegar við ráðum svo þetta fólk þá hækkar launakostnaður, svo sannarlega. Er verið að gera ráð fyrir því að leysa þennan mönnunarvanda með því að ráða inn fólk? Það er auðvitað þannig að við leysum mönnunarvanda með því að hækka laun og bæta starfsaðstæður. Þannig leysum við vandann. Það er ekki skortur á fólki þar sem er gert vel við það, það hefur góð laun (Forseti hringir.) og starfsaðstæður eru góðar. Er verið að taka tillit til þessa (Forseti hringir.) í fram komnu fjárlagafrumvarpi?