Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:58]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir það hversu flókið þetta mál er þegar ákveðið er að fara í þá vegferð að heimfæra hugmyndina um betri vinnutíma, sem er góð og getur í hugmyndafræðinni aukið skilvirknina, upp á betri vinnutíma í vaktavinnu. Ég held að birtingarmyndin sé svolítið það sem hv. þingmaður fór yfir, að gefa sér að það að þú fáir aukalega greitt fyrir aukavaktir verði meiri hvati til að vinna aukavaktir og það myndi hjálpa með mönnunarvandann. Það er hins vegar þannig, sem ekki er gert ráð fyrir þegar farið er í svona vegferð, af því að við erum alltaf að hugsa út frá hinum skynsama manni, að í samfélagi okkar hafa orðið gildislægar viðhorfsbreytingar og við verðleggjum frítíma okkar og hvíld og allt sem við gerum allt öðruvísi. Það er því ekki sjálfgefið að þetta verði svona einföld yfirfærsla, ég tala nú ekki um fyrir mannskap sem er búinn að vera nánast í vanmönnuðu kerfi, þ.e. þar sem er takmörkuð auðlind að vinna störfin. Þá þarftu hvíld og það er ekki sjálfgefið að allir séu alltaf tilbúnir í aukahlaupið. Þess vegna hefur þetta aðeins snúist upp í andhverfu sína. Þú fyllir hraðar upp í kvótann, sem er jákvætt, þú færð þá þína hvíld, en þetta hefur birst þannig m.a. á Landspítalanum og á jafn stórri stofnun að það er vandasamt að manna vaktir. (Forseti hringir.) Þetta er eitt af því. Það eru hins vegar fleiri breytur sem koma inn í þetta. Þetta er mjög áhugaverð umræða. (Forseti hringir.) Ég hef spurt: Er hægt að bakka til baka eða er hægt að sníða agnúana af þessu þannig að þetta vinni með okkur? Ég fæ mjög skiptar skoðanir á því líka. En þetta er eitthvað sem við verðum að nálgast með svona umræðu.