Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:07]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir spurningarnar. Hv. þingmaður lauk fyrri spurningu sinni í andsvari áðan sem sneri að álagi á heilbrigðiskerfið með því að vísa í orð mín um að við þurfum að draga fram heildarmynd af áhrifum af fjölgun og breyttri aldurssamsetningu, komum ferðamanna, og kom inn á flóttamenn í þessu samhengi. Það er hárrétt, hvernig eigum við að fara að því að meta fjárþörfina og mönnunina öðruvísi en að draga þetta fram og setja þetta í samhengi við það hvað við þurfum marga í hverja stétt? Við ætlum að taka ákvörðun um það hvað við eigum að byrja með marga í námi í hverri stétt. Við bara verðum að komast þangað og ég hef sett vinnu í gang varðandi það.

Ég gæti auðvitað varðandi afglæpavæðingarfrumvarp ríkisstjórnar, sem hefur komið hér fyrir þingið tvisvar, ef ég man rétt tvisvar, komið með sama kostulega svarið. Ég var alveg ærlegur í því svari og þetta var ágætisspurning. Ég bara hef ekki hugmynd um það hvernig svona neysluskammtur ætti að vera. Ég veit að það eru svo ólík sjónarmið í þessum starfshópi sem ég hef skipað og ég dró bara alla að borðinu; ríkislögreglustjóra, embætti landlæknis, þá sem eru að vinna að skaðaminnkandi úrræðum, fulltrúa frá notendum og notendahópum, bara alla sem hafa eitthvað um málið að segja vegna þess að sjónarmiðin eru svo ólík. Ef við höfum þá hugmynd að við ætlum að fara eitthvað áleiðis í þessum efnum þá verðum við að draga þetta fram. Það er verkefnið.