Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:27]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi góðu svör. Hún mun fá minn stuðning til að halda áfram að bæta kjör bænda, það er ljóst. Ég held að það hafi verið árið 2015 sem við ákváðum hér í þinginu að taka út vörugjöld og tolla af þúsundum vöruflokka, þar á meðal hundruðum landbúnaðarafurða. Þrátt fyrir að þingið hafi gert það þá eru mjög margir vöruflokkar landbúnaðarvara; grænmeti og ávextir og aðrar slíkar vörur, fjórum til sex sinnum dýrari á Íslandi þrátt fyrir að hér séu engir verndartollar.

Hér hefur verið kallað eftir því á síðustu dögum að verndartollar á franskar kartöflur verði felldir niður. Það er hætt að framleiða franskar kartöflur á Íslandi, því miður, mér finnst það mjög mikil afturför og auðvitað er þá eðlilegt að ekki séu verndartollar til staðar. En ég hjó eftir því að veitingamaður sagði um daginn að það myndi lækka hvern skammt af frönskum um 300 kall ef verndartollar yrðu teknir af. Ég hafði þá samband við veitingamanninn og benti honum á hvernig það hefði gengið á undanförnum árum þegar við höfum fellt niður tolla og vörugjöld af hundruðum vöruflokka, að ég kannaðist ekki við að einn einasti kjósandi hefði haft samband við mig og þakkað mér og þinginu fyrir það að þessi vörugjöld hefðu verið felld niður, vegna þess að það fann enginn fyrir því þrátt fyrir að við værum að tala um 15–20 milljarða á ári. Þetta eru engir smápeningar þegar búið er að deila þessu á okkur öll. Ég spurði veitingamanninn hvort hann ætlaði að standa við það að lækka skammtinn af frönsku kartöflunum um 300 kall, en það kom ekkert svar. Ég spyr hæstv. ráðherra því: Hvernig getum við búið við það að vera sífellt að lækka tolla og vörugjöld, sem ég er algerlega sammála að við gerum, en það skilar sér aldrei til þeirra sem eiga að fá það? Hvernig förum við að því að breyta því?