Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:29]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þingmaður bendir á þá er þetta viðvarandi áhyggjuefni, þ.e. þegar um er að ræða ákvörðun stjórnvalda sem á að koma neytendum og öllum almenningi til góða og það skilar sér ekki. Við höfum auðvitað fjöldamörg dæmi um þetta og ekki bara í tengslum við það sem hv. þingmaður nefnir hér varðandi vörugjöld eða tolla heldur líka í fleiri atriðum. Ég vil bara segja þá, vegna þess að hluti af þessu heyrir sannarlega undir mitt ráðuneyti og hluti af þessu tollaumhverfi heyrir þar undir þó að tollalögin sem slík heyrir auðvitað undir fjármálaráðherra, að við verðum að horfast í augu við það að ábyrgð þeirra sem taka ákvarðanir um verð er mjög mikil. Ábyrgð verslunarinnar og þjónustunnar er mjög mikil og ekki síst á dýrtíðartímum eins og nú eru, vegna þess að verðið í matarkörfunni er svo stór partur af kjörum vinnandi fólks. Þess vegna þurfa ákvarðanir sem þessar að endurspeglast þar.

Hvað síðan varðar þessi almennu sjónarmið sem hv. þingmaður talaði fyrir varðandi samspil tollaumhverfis og innlends landbúnaðar þá er þetta auðvitað einstigi sem er snúið að feta. Við þurfum alltaf að gæta að báðum sjónarmiðunum og líka því að þegar við eigum í samningaviðræðum, hvort sem er við Evrópusambandið eða aðra aðila varðandi þessi viðskiptamál, þurfum við að gæta að hagsmunum innlendrar matvælaframleiðslu. En það er mál sem við leysum ekki í þessum fyrirspurnum hér en verður viðvarandi þáttur í fæðuöryggi.