Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:36]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég biðst afsökunar á að hafa ekki komist á fundinn í gær hjá samráðshópnum, ég var því miður upptekinn við umræðu fjárlaga í gær. Talandi um það að setja undir sig hausinn og það að hækka veiðileyfagjald sé kerfisbreyting — ég er ekki einu sinni að spyrja um kerfisbreytingu, ég var ekki að spyrja um hana. Ég var bara að spyrja um hækkun á veiðileyfagjaldi. Það eru hækkanir á gjöldum í þessu fjárlagafrumvarpi og á hverju einasta ári, á alls konar gjöldum hingað og þangað, án þess að farið sé í kerfisbreytingu. Þetta er bara spurning um það að í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi sé veiðileyfagjald hækkað. Þessi ríkisstjórn lækkaði veiðileyfagjaldið á síðasta kjörtímabili án kerfisbreytinga. Ég er að tala um að það eigi að hækka það og að þjóðin, ríkissjóður landsmanna, sameignarsjóður þjóðarinnar, eigi að fá meira fyrir auðlindarentuna af þjóðarauðlindinni. Um það er spurningin og það er einföld spurning. Það er ekkert að setja undir sig hausinn, það er bara ekki þannig.

Og varðandi það að ég sé að setja hluti í samhengi sem á ekki við þá, þá er allt afstætt í heiminum og þetta er alveg klárt mál, við sjáum það út frá ríkissjóði að hann fær 25,5 milljarða af áfengisdrykkju landsmanna en bara 8 milljarða af þjóðarauðlindinni. Það er auðvitað „relatíft“ en sýnir hversu lítill peningur kemur í ríkissjóð af þjóðarauðlindinni, það sýnir það, setur það í samhengi við annað. Við eigum ekki bara að tala um 8 milljarða án samhengis við annað, þá er maður ekki staddur neins staðar. Það er það sem verið er að gera. En það er með ólíkindum hvernig þessi ríkisstjórn vinnur. Ég var kosinn hingað á Alþingi til að hafa skoðanir og fylgja stefnu flokksins, svo það liggi alveg fyrir. En þegar kemur að skoðunum hæstv. ráðherra og stefnu þessarar ríkisstjórnar þá er málið sett í nefnd, sett í starfshóp, skoðunum útvistað. Ég er kominn til þessarar stofnunar sem á að hafa skoðanir, en nei, þetta er sett í starfshóp. Ég hef unnið í svona starfshóp og veit alveg hvernig þeir vinna. Þetta eru tæknilegir starfshópar. (Forseti hringir.) Stefnumörkunin á heima hér og ekki neins staðar annars staðar. Svar forsætisráðherra í morgun var nákvæmlega á sömu leið; opin fyrir að ræða málin, (Forseti hringir.) hún var svo sannarlega opin fyrir því, og að gjaldtakan sé til stöðugrar skoðunar. Það voru svörin orðrétt. Það eru ekki skoðanir sem (Forseti hringir.) mark er takandi á, það er bara eitthvert tæknilegt spjall.