Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:41]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir skemmtilega stefnuræðu þar sem hæstv. ráðherra lét í ljós hvaða sýn ráðherrann hefur á þessum málum, sumt ekki alveg í samræmi við restina af ríkisstjórninni, en það er bara gott. Mig langaði að byrja á að ræða um blessuð veiðigjöldin. Mig langaði fyrst taka þau mjög einfaldlega fyrir og ekki flækja málið um of. Þannig er í dag að þau veiðigjöld sem sjávarútvegurinn borgar duga ekki til þess að greiða fyrir þá þjónustu sem ríkið er að sinna í tengslum við sjávarútveginn. Þá er ég að tala um kostnað við Fiskistofu, kostnað við hafrannsóknir og kostnað við löggæsluhluta Landhelgisgæslunnar. Í raun má segja að ríkið sé að borga með sjávarútvegi og mig langar að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hún telji ekki vera dálítið rangt að það sé svoleiðis.

Í öðru lagi langar mig örstutt að spyrja ráðherra um hvort hún hefði ekki áhyggjur af — af því að hér var talað um samþjöppun í sjávarútveginum — of mikilli samþjöppun í fiskeldi, sér í lagi sjókvíaeldi þar sem þetta eru mikið til erlendir aðilar. Telur hæstv. ráðherra þetta ekki vera áhyggjuefni og er allt þetta sjókvíaeldi ekki tímaskekkja umhverfislega séð?