Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:47]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Af því að hv. þingmaður talar sérstaklega um þessi mál sem lúta að eftirlitinu þá er það hárrétt ábending í sjálfu sér og er í vissum skilningi veikleiki á frumvarpinu, ekki síst af því að hv. þingmaður er í atvinnuveganefnd og veit að til lengri tíma er sparnaður af bættu eftirliti. En það er líka veikleiki almennt í áætlanagerð okkar að það er snúið að reikna út með hvaða hætti sá ábati kemur fram eða skilar sér yfir höfuð. En við vitum það og hv. þingmaður veit að þarna erum við að tala um breytingar sem munu skila árangri.

Ég tek líka undir þessa þætti sem lúta að vistkerfisnálguninni, svo við klárum þetta varðandi Hafrannsóknastofnun og mikilvægi þess að styrkja hafrannsóknir og ekki síst vöktunina. Við vitum út frá vistkerfum sjávar hverjar ástæður þess eru að sveiflur verða í tilteknum stofnum. Þar höfum við ákveðnar skyldur við alþjóðlega samninga og líffræðilega fjölbreytni o.s.frv., en ekki síður snýst þetta um að skilja betur samspil nýtingar og viðkomu í vistkerfum sjávar, að ég nefni svo ekki alþjóðlegar skuldbindingar okkar og skyldur að því er varðar þetta risavaxna hafsvæði og áhrif loftslagsbreytinga á það. Þetta eru mjög stór mál og ég held að við gætum, með raunverulegri sóknaráætlun fyrir Hafrannsóknastofnun, gert miklu betur en til þess þurfum við að leggja grunn og það er eitt af því (Forseti hringir.) sem við erum að hugsa um í þessari stóru nefnd og þess vegna fjölluðum við sérstaklega um hafrannsóknir í gær og ég vona að okkur takist að koma þeim ofar á forgangslistann.