Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:18]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er bara einhver misskilningur hjá okkar framúrskarandi kvikmyndagerðarfólki, sagði hæstv. ráðherra menningarmála um hörð viðbrögð kvikmyndageirans eins og hann leggur sig við því að verið sé að skera niður fjármuni til Kvikmyndasjóðs á næsta ári. Hvað varð um loforðin sem eru í kvikmyndastefnu um verulega aukningu á framlögum til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands annars vegar og Kvikmyndasjóðs? Förum aðeins yfir málið. Mennta- og menningarmálaráðherra, sem þá hét hæstv. menningarráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, kynnti skömmu fyrir síðustu kosningar metnaðarfulla kvikmyndastefnu til ársins 2030 þar sem fram kom að úthlutunarrammi Kvikmyndasjóðs yrði skilgreindur og úthlutað á grundvelli nýrra viðmiða frá vorinu 2021. Í frétt á vef ráðuneytisins kom svo fram að 550 milljónir væru eyrnamerktar þeim markmiðum sem koma fram í nýrri kvikmyndastefnu sem kynnt yrði síðar. Sama skilning mátti sjá hjá Kvikmyndamiðstöðinni sem sagði að breytingar þess árs endurspegluðu innleiðingu þessarar nýju og góðu stefnu. Með öðrum orðum, það virðist sem stjórnvöld hafi blekkt kvikmyndageirann, látið hann halda að um væri að ræða framkvæmd stefnu sem gerð var til ársins 2030 í stað einskiptisaðgerðar vegna Covid, eins og ráðherra segir að hafi verið á ferðinni núna.

Þetta er bara misskilningur, segir ráðherrann. Þá hljótum við hér og kvikmyndabransinn allur að spyrja: Hvernig á að hrinda markmiðum stefnunnar í framkvæmd ef ekki fylgir nægt fjármagn? Hver er það sem er að misskilja? Var það kannski ekki væntingastjórnun kvikmyndagerðarfólks sem brást, eins og hæstv. ráðherra sagði í útvarpinu í morgun, heldur mögulega væntingastjórnun hæstv. ráðherra í aðdraganda þingkosninga?