Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:41]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en hún svaraði kannski ekki alveg spurningunni um það að framlög til Ríkisútvarpsins eru að hækka vegna þess að það er hækkun í samræmi við tekjuáætlun útvarpsgjalds. Þarna er átómatískt verið auka fjárframlög til ríkisstofnunar sem er umdeild, er á auglýsingamarkaði og er ríkisstyrkt. Ég fæ ekki séð að frjáls fjölmiðlun fái notið sín í ríkisstyrktu umhverfi. Ég get ekki séð að fjölmiðill sé óháður og frjáls þegar hann fær peninga frá ríkinu. Þetta blessaða fjórða vald á að veita stjórnvöldum aðhald en þegar það fær pening frá stjórnvöldum, þá er það ekki að veita aðhald samkvæmt því. Ég er nýr þingmaður og farinn að fylgjast með umræðunni með öðrum hætti en ég fylgdist líka með henni þegar ég bjó erlendis og það er eitt sem kem alveg ótrúlega á óvart, reyndar tveir hlutir og ég skal nefna annan: Það eru íslenskir fjölmiðlar, hvernig þeir vinna. Maður bara gapir stundum. Mér verður oft hugsað til þess að helsti fjölmiðlamaður undanfarinna ára var með ummæli aldarinnar sem allir þekkja og ég þarf ekki að hafa eftir. En viðhorf almennings til þessarar stofnunar hérna úti í samfélaginu er bara kolrangt. Af hverju? Út af umfjöllun fjölmiðla um stofnunina. Það er ekki út af vinnubrögðum hérna inni (Gripið fram í.) eða því hvernig einstakir þingmenn vinna, það er vegna umfjöllunar fjölmiðla. Það að fara að ríkisstyrkja þetta er bara kolröng aðferð. Hérna er þingmaður sjálfstæðismanna sem talar mikið um frelsi í samfélaginu og ég bara trúi því varla að sá hv. þingmaður fari að styðja það að ríkisstyrkja fjölmiðla, í flokki sem trúir á frjálst markaðshagkerfi. Þá fer ekki saman að styrkja fjölmiðla líka. Ég bara skil ekki að þetta skuli vera unnið svona af hálfu ríkisstjórnarinnar með þann flokk innan borðs. Annað varðandi Danmörku. Það búa 5,5 milljónir manna í Danmörku. Þetta er gjörólíkt samfélag. Noregur, þar sem ég þekki aðeins til, er samfélag upp á 5,3 milljónir manna. Ef við ætlum að bera okkur saman við eitthvert ríki þá ættum við að bera okkur saman við Norður-Noreg. Þar búa 470.000 manns (Forseti hringir.) og það er mjög líkt samfélag að mörgu leyti. En aðallega er það að hafa skattfrelsi, lækka skatta á þetta og þá fær gróskan að lifa og (Forseti hringir.) hæfileikamenn innan stéttarinnar fá að njóta sín. Þeir gera það ekki í dag í núverandi umhverfi. Það er líka verið að trufla aðgang (Forseti hringir.) inn á markaðinn ef það er verið að ríkisstyrkja ákveðna fjölmiðla. Þá kemur enginn nýgræðingur þar inn.