Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:05]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að minnast á máltækniverkefnið og ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður þekki það að á síðasta kjörtímabili setti þáverandi ríkisstjórn yfir 2 milljarða í að byggja upp innviði til að sinna því að íslenskan lifi í hinum stafræna heimi. Hv. þingmaður spyr hvort við séum mögulega að hverfa af þeirri braut. Það er af og frá. Nú erum við að vinna að næstu máltækniáætlun og hún er gríðarlega mikilvæg vegna þess að það sem hefur tekist að gera á þessum síðustu fjórum árum í mennta- og menningarmálaráðuneytinu var að byggja upp þessa innviði. Þeir innviðir eru það góðir að þegar ég fylgdi hæstv. forseta Íslands til Kaliforníu og við vorum að kynna þá þá fannst öllum þessum stórfyrirtækjum sem við áttum fundi með þetta það tilkomumikið að næsta skrefið í þessari áætlun er að koma þessum innviðum til fyrirtækja sem bjóða upp á þá tækni að við getum hreinlega talað við tækin okkar á íslensku. Þannig að ég vil fullvissa hv. þingmann um það að það er af og frá að það sé eitthvað slíkt í vændum, að við séum að hverfa frá máltækniáætluninni. Við munum halda áfram að sinna henni, setja fjármuni í það. Það stendur til að uppfæra þingsályktunartillögu sem var samþykkt árið 2018 og ef eitthvað er, gefa frekar í.