Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:17]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins að vekja athygli á þessu máli sem er til umræðu hér að hluta, held ég. Ég er nýr hérna á þinginu og tek núna þátt í þessari umræðu þar sem eru fyrirspurnir til ráðherra og svo eru hér óundirbúnar fyrirspurnir líka. Vandamálið er það að manni er ekki svarað. Ég spyr einfaldra spurninga: Hver er skoðun ráðherra á þessu? Þá kemur svarið: Hv. þingmaður, það þarf að setja málið í nefnd, taka opna umræðu, ég er opinn fyrir umræðu um þetta. Það þarf að skoða þetta mál. Og ef málið er virkilega stórt þá þarf heildarendurskoðun. Það er eins og fólkið hérna í stjórnarliðinu sé ekki kosið til að hafa skoðanir. Ég er kosinn á Alþingi Íslendinga til að hafa skoðanir, ég er kosinn út á stjórnmálaskoðanir mínar og vegna stefnu flokksins míns. Ég lít þannig á að ég eigi að hafa skoðanir hérna inni. Það er mín vinna, ég fæ borgað fyrir það, og að fylgja eftir kosningastefnuskrá flokksins míns. En það virðist vera (Forseti hringir.) þegar maður talar við ráðherrana að þá getur maður ekki fengið fram einföldustu skoðanir (Forseti hringir.) sem eru fyrir hendi. Það þarf að setja málið í nefnd. Það er eins og ríkisstjórnin sé bara búin að útvista skoðunum sínum til starfshópa og nefnda úti í bæ.