Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:54]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég tel að vestnorrænn samningur, eins konar rammasamningur, þar sem væri ad hoc dómstóll í ágreiningi þar sem væri bara hlutlægt tekið á því, væri mjög góð lausn. Ég veit að það hefur verið ágreiningur varðandi Hoyvíkursamkomulagið og ég tel að Ísland hafi gert ákveðin mistök þar. Ég tel að í svona samningi við Grænland þá væru ákveðnir kaflar sem myndu lúta Grænlandi sem þeir myndu velja. Ég hitti útgerðarmann sem er með starfsemi á Suður-Grænlandi og hann nefndi dæmi um réttindi sjómanna. Þeir missa réttindi við að fara á grænlensku skipin og réttindi starfsmanna líka. Svo var ég svo heppinn að hitta mann frá Ístaki á leiðinni heim úr síðustu ferðinni og hann talaði líka um vandamál varðandi starfsmenn. Ég tel að það þurfi að horfa á slík mál, frjálsa flutninga fólks á milli og líka þróunarsjóði sem þarf að setja inn í rammasamning. Þetta er lítið efnahagssvæði en þetta þarf að gerast mikið á forsendum Grænlendinga sjálfra sem eru að byggja upp samfélag sitt. Við erum komin miklu lengra í þróuninni.

En að þessu slepptu langar mig að spyrja um Úkraínu. Í frumvarpi til fjárlaga kemur fram að fjárheimildir séu auknar um 430 millj. kr. til uppbyggingar mannúðarstarfs í Úkraínu. Þessu ber að fagna og ég fagna afstöðu ríkisstjórnarinnar til málefna Úkraínu og þeim stuðningi sem við veitum þar og þeirri samstöðu sem er hér á Alþingi. Það er mjög skemmtilegt að forseti Úkraínu hafi haldið ræðu hér á fjarfundi. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig þessum þróunarframlögum er háttað, þ.e. hvaða stofnanir taka við þessum framlögum og hvaða aðstoð er verið að veita fyrir þau í Úkraínu. Væri ekki rétt að þau færu til hinna allra lægst settu; öryrkja, aldraðra og jafnvel geðsjúkra? Ég sá frétt um daginn sem fjallaði um stöðu geðsjúkra í landinu og hún er mjög bágborin og mjög erfið. Ég tel rétt að aðstoðin fari þangað sem þörfin er allra mest, það sé markmiðið. En það væri mjög gaman að heyra afstöðu ráðherra til þessa og í hvað peningunum er ætlað að fara og hvar nákvæmlega á að setja þá.