Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég tel mig nú hafa vikið að því hér í annarri ræðu að það þarf að gæta að því að menn skili stuðningnum í því formi sem kemur mest að gagni og ég tek alveg undir með hv. þingmanni að langlíklegast er að það sé einfaldast að veita bara beinan fjárhagslegan stuðning. Þetta er einmitt eitthvað sem ráðuneytið mun taka til skoðunar en til að vera alveg skýr þá hef ég séð þetta þannig fyrir mér að við þyrftum að koma með viðbótarframlag inn í fjáraukalagafrumvarp þessa árs.

Að öðru leyti þá var að vísa til þess áðan að um leið og við Íslendingar aukum alþjóðlegu þróunaraðstoðina okkar um marga milljarða á ári þá þurfum við að sjá til þess að geta okkar til að sinna þróunarsamvinnu, hvort sem er tvíhliða þróunaraðstoð eða fjölþjóðleg, vaxi í takt við þær auknu fjárheimildir eða fjárveitingar sem við ræðum. Ég er einfaldlega að vísa til þess að mér finnst eðlilegt að við gætum þess að í þeim fjölþjóðastofnunum, eða eftir atvikum á vettvangi í tvíhliða aðstoð, starfi sem oftast Íslendingar sem skili inn í stjórnkerfi okkar sem mestri þekkingu. Það breytir því ekki að það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að verkefnið sem slíkt er auðvitað að sjá til þess að hjálpa fólki til sjálfshjálpar heima fyrir. Það er kjarni vinnunnar. Ég bendi einungis á að þegar við erum farin að setja marga milljarða inn í þessa málaflokka þá þurfum við að sjá til þess að þekking safnist upp í íslenska stjórnkerfinu til að taka góðar ákvarðanir sem einhver samfella er í yfir tíma.