Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:03]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Virðulegur forseti. Það hefur verið mjög áhugavert og athyglisvert að hlusta á 1. umr. um fjárlög fyrir árið 2023. Það er ánægjulegt að sjá þá stöðu sem ríkissjóður er í þrátt fyrir þær efnahagsþrengingar sem Ísland og í raun heimurinn allur hefur gengið í gegnum á síðustu árum. Covid-19 faraldurinn hafði veruleg áhrif á íslenskt efnahagslíf og erum við enn og munum á næstu árum vinna að því að rétta skútuna við eftir þau ár. Innrás Rússa í Úkraínu hefur sömuleiðis haft veruleg áhrif á efnahag landsins en færa má fyrir því rök að staða Íslands sé betri en nágrannaríkja okkar í Evrópu. Það er ekki séð fyrir endann á þeim hörmungum sem stríðið í Úkraínu hefur fyrir almenning þar í landi og hefur sömuleiðis smitast til annarra ríkja í Evrópu, þar með talið Íslands. Við sjáum nú breytta heimsmynd teiknast upp, heimsmynd sem ég leyfi mér að fullyrða að ekkert okkar sem hér eru inni sáum fyrir og ímynduðum okkur að við ættum eftir að upplifa á okkar tímum.

Mesti fjöldi flóttamanna í Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar er nú staðreynd og höfum við Íslendingar opnað dyr okkar fyrir því fólki. En af hverju er ég að tala um þetta? Jú, vegna þess að það er mikilvægt að átta sig á því alþjóðlega umhverfi sem við lifum í í dag því að það umhverfi hefur veruleg áhrif á hagstjórn á efnahagsmál okkar hér á landi og þau fjárlög sem eru til umræðu í dag og hafa verið síðustu daga. Efnahagsástandið á Íslandi er að taka við sér og við erum á réttri leið að ná aftur okkar fyrri styrk. Mikill afkomubati er á ríkissjóði og er hann um 100 milljarðar frá því sem áætlanir gerðu ráð fyrir. Halli ríkissjóðs er áætlaður um 89 milljarðar sem er sömuleiðis undir þeim áætlunum sem gerðar höfðu verið. Atvinnuleysið er komið undir um 3%, sem er undir meðaltali frá árinu 2000, og viðspyrna atvinnulífsins hefur verið svo kröftug, sér í lagi ferðaþjónustunnar þar sem fjöldi ferðamanna er komin á par við það sem hann var fyrir Covid-19 faraldurinn og eftirspurn eftir vinnuafli er langt umfram framboð. 13.000 ný störf hafa orðið til á árinu og spáð er fyrir allt að 6% hagvexti á árinu 2023. Skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa lækkað. Spár gerðu ráð fyrir að skuldirnar gætu farið yfir 50% á árinu 2023, en í því fjárlagafrumvarpi sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs verði um 33%. Í öllum þessum efnahagslegu þrengingum hefur kaupmáttur aukist og frá árinu 2016 hafa ráðstöfunartekjur einstaklings aukist um 60.000 kr. á mánuði, sem gerir um 22.000 kr. hækkun á tímabilinu. Kaupmáttur fullvinnandi láglaunafólks hefur aukið miðgildi samkvæmt Hagstofu Íslands um 370.000 á ársgrundvelli milli áranna 2018 og 2021. Kaupmáttur hefur verið varinn þrátt fyrir óveðursský í efnahagslegum skilningi. Í því frumvarpi sem hér liggur fyrir er heilbrigðis- og velferðarþjónustan varin en engin aðhaldskrafa er sett á þessa liði sem taka um 58% af útgjöldum ríkissjóðs. Framlög til heilbrigðismála hafa aukist um 40 milljarða frá árinu 2020 enda góð heilbrigðis- og velferðarþjónusta grunnurinn að því samfélagi sem við viljum byggja á hér á landi. Lögð er rík áhersla á að styrkja og verja grunnþjónustu tilfærslukerfa á borð við örorku og ellilífeyri. Rekstrarframlög og tilfærslur aukast um tæplega 30 milljarða kr. Verðbólga hefur vaxið hér á landi síðustu mánuði og mælist nú 9,7%, sem er lækkun frá síðustu mælingu og gefur vonir um að verðbólga sé nú á niðurleið. Í alþjóðlegum samanburði er verðbólga lág hér á landi en aðeins í Sviss mælist verðbólga minni í Evrópu.

Virðulegur forseti. Stóra verkefnið er að viðhalda þeim góða árangri sem náðst hefur í fjármálum ríkisins á erfiðum og mjög svo krefjandi tímum. Áframhaldandi hagvöxtur, lágt atvinnuleysisstig, aukinn kaupmáttur, lækkun verðbólgu og stöðvun skuldasöfnunar ríkissjóðs eru leiðarstef þessarar áætlunar. Það er gert á sama tíma og heilbrigðis- og velferðarkerfi okkar er varið.

Fjárlög fyrir árið 2023 fara nú til fjárlaganefndar og síðan til 2. umr. hér á Alþingi. Við eigum að rýna þessi fjárlög vel og velta við öllum steinum í þeirri vinnu sem fram undan er. Ég óska þingmönnum velfarnaðar í þeirri vandasömu vinnu sem fram undan er, að skila þjóðinni fjárlögum fyrir árið 2023 sem fleyta okkur fram á við og viðheldur þeim efnahagsbata sem náðst hefur.