Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:26]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Í allt sumar hafa raðvaxtahækkanir Seðlabankans verið áhyggjuefni á heimilum landsins. Verðbólgan er í hæstu hæðum eins og víða annars staðar. Verðbólgan er auðvitað ekki íslenskt vandamál en vextir á Íslandi hafa hækkað tíu sinnum meira hér en í Danmörku þrátt fyrir að þar sé sama verðbólgan. Heimilin á Íslandi svitna en það er ekki staðan þar. Í allt sumar hefur fjárlagafrumvarp verið í smíðum hjá ríkisstjórn Íslands þar sem sitja 12 ráðherrar í 12 ráðuneytum hjá þjóð sem telur tæplega 380.000 manns og nú birtist fjárlagafrumvarp eftir 12 vikna hlé þingsins, frumvarp sem hljóðar upp á næstum 90 milljarða kr. halla. Staðan er sterk, segir fjármálaráðherra, á meðan fjórði stærsti útgjaldaliður íslenska ríkisins er vaxtakostnaður. Það er samfélaginu dýrt að skulda. Heimilin á Íslandi þekkja þann veruleika og finna vel fyrir honum, það er dýrt að skulda. Afkoman er betri en reiknað hafði verið með, segir hæstv. fjármálaráðherra, en hallinn er nú samt 6,5 milljörðum kr. meiri en þegar fjármálaáætlun var samþykkt í vor. Hvað með það þótt báknið blási út? Hvað með það þótt útgjöld aukist án þess að þjónustan batni? Hvað með það þótt mikilvægum fjárfestingum í innviðum sé slegið á frest? Hvað um það þótt sveitarfélögin tapa milljörðum? Hvað um það þó að heimilin kafni vegna hækkandi lána? Geta þau ekki bara eytt minna?

Sem þjóð eigum við sennilega heimsmet í fjölda ráðherra miðað við höfðatölu og mögulega líka í fjölda ríkisstofnana miðað við höfðatölu. Fjármálaráðherra talar um tækifæri í einfaldara ríkiskerfi og sameiningu ríkisstofnana. Það er alveg rétt. Hins vegar er ekki stafkrókur um þessar tillögur í fjárlagafrumvarpinu. Kannski þarf meiri tíma en þá þarf að rifja upp að þessi ríkisstjórn þurfti nú samt bara nokkrar vikur til að fjölga ráðuneytum og ráðherrum með kostnaði upp á einhverja milljarða króna. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er sú fjölmennasta í meira en áratug. Eftir hrun voru ráðuneyti sameinuð og þeim fækkað. Kostnaður var hluti skýringarinnar en það var ekki síður sú staðreynd að minni ráðuneytin voru veikari. Faglegur grundvöllur stjórnsýslunnar hafði verið veikur, ekki síst vegna þess að ráðuneytin voru lítil. Hluti af því að styrkja ráðuneytin í þágu almennings var að stækka þau, færri og stærri, en ríkisstjórnin vísar nú þessari niðurstöðu og þessum lærdómi á bug enda þurfti að fjölga ráðherrastólunum. Hvað með það þótt ráðuneytin verði veikari fyrir vikið, en samt dýrari?

Frú forseti. Fjárlagapólitík snýst í reynd um einfalda en mikilvæga spurningu: Hvernig virkar samfélagið best? Fjárlögin eiga að vera leiðin að þessu markmiði. Ríkisstjórnin talar um að það þurfi að verja viðkvæmustu hópana fyrir áhrifum verðbólgu. Við erum ríkisstjórninni hjartanlega sammála. Vandamálið er að þessar aðgerðir vantar. Ríkið gegnir mikilvægu hlutverki um að halda aftur af verðbólgunni en tekur fá skref og fjölskyldur landsins borga reikninginn. Ríkisstjórnin sem belgir út báknið fer á sama tíma þá leið við tekjuöflun að auka byrðar millitekjufólks. Millitekjufólkið fær á sig töluverðan skell frá ríkisstjórninni og hvaða fólk er þetta? Þetta er sama fólk og hefur í allt sumar fundið illilega fyrir hækkandi vöxtum á fasteignalánum og hækkandi verðlagi. Hingað verða tekjur sóttar og auðvitað bíta þessar aðgerðir viðkvæmu hópanna fast. Fjármálaráðherra talar um að ríkisfjármálin þurfi að styðja við markmið Seðlabankans um verðbólgu en segir ekki hvernig. Krónutölugjöld eru hækkuð miðað við vísitölu, eins og venjulega, þótt þau geti þannig hækkað verðbólgu enn frekar. Ríkisstjórnin skerðir stofnframlög til uppbyggingar í almenna íbúðakerfinu um 2 milljarða þegar aukin uppbygging er stærsta ráðið til að dempa hækkun íbúðaverðs og verðbólguna. En jú, opinberum framkvæmdum er seinkað til að draga úr áhrifum á þenslu. Í því sambandi vil ég minna á þingsályktunum Viðreisnar sem Alþingi samþykkti 2018 en hefur legið óhreyfð hjá hæstv. fjármálaráðherra síðan. Ályktunin fjallar um að tryggja gæði, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga, verkfæri sem væri gagnlegt núna við mat á því hvaða skref á að stíga og hverju þarf að fresta.

Gjaldapólitík ríkisstjórnarinnar er áhugaverð. Stimpilgjöld, 8 milljarðar, áfengisgjald 1,7 milljarður, veiðigjald á útgerðirnar 0,9 milljarðar. Það er 3 milljörðum lægra en það var árið 2018, enda heyrist orðið veiðigjald ekki þegar forystumenn ríkisstjórnarinnar tala um fjárlagafrumvarpið og orð hæstv. innviðaráðherra frá því í sumar um nauðsyn þess að fara í annars konar gjaldtöku fyrir afnot af auðlindinni hafa gleymst.

En hér vil ég leyfa mér að segja að ég bind vonir við ráðherra sjávarútvegsins að hún sé að leggja við hlustir, því að ræða hennar í stefnuræðu forsætisráðherra gefur tilefni til að ætla að svo sé. En hérna þarf auðvitað ekki 27 manna nefnd. Það þarf einfaldlega að taka pólitíska ákvörðun og fylgja henni eftir.

Um tekjuöflun þarf líka að rýna hvað ríkisstjórnin á við um áframhaldandi sölu á hlut í Íslandsbanka. Þessi sala er mikilvæg fyrir almannahagsmuni. Það er mikilvægt að fjármunirnir sem fást með sölu læsist ekki inni heldur verði nýttir til brýnna verkefna og að greiða niður skuldir. En ég spyr hvað ríkisstjórnin á við því að í apríl gaf hún út fréttatilkynningu um að hún ætlaði að leggja Bankasýsluna niður í kjölfar þess að ríkisstjórnin stóð þannig að sölu bankans að 83% þjóðarinnar voru ósátt. Það er fjármálaráðherrann sem ber lagalega og pólitíska ábyrgð á sölunni. Með leyfi forseta, segir fréttatilkynningin: „Formenn stjórnarflokkanna eru sammála um eftirfarandi atriði.“ Og síðar, með leyfi forseta: „Ekki verður ráðist í frekari sölu á hlutum í Íslandsbanka að sinni. Þegar ný löggjöf liggur fyrir mun ákvörðun um mögulega sölu á hlut í Íslandsbanka verða tekin fyrir á Alþingi.“ Fjármálafrumvarpið gerir engu að síður ráð fyrir að þessari sölu verði haldið áfram.

Nýtt fyrirkomulag um söluna liggur samt ekki fyrir. Ríkisstjórnin boðar áframhaldandi sölu en hefur gefið út fréttatilkynningu um að fasteignasalinn hafi verið rekinn og er ekki búin að finna sér nýjan. Það á að reyna að selja bankann en öll umgjörðin í kringum söluna er í uppnámi. Auðvitað er lágmarkskrafa að aðferðafræðin við söluna sé ljós. Markmið með sölu verður veikt þegar umgjörð söluferlisins er í óvissu. Það getur t.d. þýtt að ekki verði selt fyrr en eftir langan tíma með tilheyrandi skaða fyrir ríkissjóð. Það getur líka þýtt að salan fari fram í óljósu umhverfi sem yrði þá til hagsbóta fyrir fjárfesta en til skaða fyrir ríkissjóð. Það er sjálfstætt vandamál við þetta verkefni hversu lítill trúverðugleiki fjármálaráðherra er í þessu máli. Hér skiptir auðvitað öllu að vanda til verka. Það skiptir máli fyrir ríkissjóð að þetta söluandvirði fáist til brýnna verkefna og niðurgreiðslu skulda. Þetta er mál sem varðar almannahagsmuni.

Forseti. Viðreisn hefur metnað fyrir heilbrigðiskerfinu og heilbrigðisþjónustu. Framganga Steinunnar Þórðardóttur, formanns Læknafélagsins, hefur vakið athygli mína. Í dag bendir hún t.d. á augljósar staðreyndir um framfarir í ýmsum meðferðum, t.d. við krabbameini. Lyfjakostnaður er þess vegna sívaxandi hluti af kostnaði heilbrigðiskerfisins. Mér finnst áhyggjuefni þegar hún metur fjárlögin þannig að þau veiti ekki svigrúm til að taka neitt nýtt í notkun. Fjárlagafrumvarp gerir heldur ekki ráð fyrir fjármagni til að semja við sjálfstætt starfandi lækna en samningar hafa verið lausir um árabil. Mönnunarvandinn blasir við, hjúkrunarfræðingar hverfa til annarra starfa og við þurfum að standast samkeppni að utan því að heilbrigðisstarfsfólk er eftirsóttasti starfskraftur heims. Viðreisn vill þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta. Það er mikilvægur liður í því að styrkja heilbrigðiskerfið til lengri tíma litið. Þingsályktunartillaga okkar um þetta var samþykkt 2018 en ríkisstjórnin hefur ekkert gert með þá þingsályktun. Eftir að hafa hlýtt á umræður er ljóst að lykilspurningum er ósvarað í þessu frumvarpi, enginn kjarkur er til að taka markviss skref um aðhald í ríkisrekstri. Það vantar svör við stærstu spurningum heimilanna í landinu. Svör og sýn um aðgerðir gegn verðbólgu og viðbrögð við vöxtum. Það vantar einfaldlega skilning á því hver veruleiki margra heimila er. Tekjuöflun er ómarkviss og hún er ósanngjörn. Það vantar framtíðarsýn fyrir heilbrigðiskerfið. (Forseti hringir.) Auðvitað snýst umræðan hér um hvar okkur greinir á og mér virðist sem þingið eigi mikla vinnu fyrir höndum því það gengur ekki (Forseti hringir.) að stjórnin sitji hjá í lykilmálum, velti skuldavandanum yfir á næstu stjórn og axli ekki sína ábyrgð. Það er hlutverk ríkisstjórnarinnar að stunda og standa fyrir pólitík.