Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

húsnæðisuppbygging samkvæmt fjárlagafrumvarpi.

[15:12]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Mig langar aðeins að ræða fjárlög, en þau eru mikilvægasta mál hverrar ríkisstjórnar og hvers þingvetrar, og hafa áhrif á líf okkar frá degi til dags. Ég býst við að það sé ekki bara tilfinning mín að fjárlög hafi verið að breytast talsvert mikið milli umræðna, aðallega vegna breyttra áherslna ráðherra síðustu ár. Nú kann slíkt að vera óhjákvæmilegt til að bregðast við óvæntum utanaðkomandi áhrifum, eins og t.d. átti við í Covid, en þegar um er að ræða aðgerðir vegna uppsafnaðs húsnæðisskorts sem er til margra ára gegnir kannski talsvert öðru máli. Síðasta vor birtist hæstv. innviðaráðherra hér nokkuð borubrattur og upplýsti um risaátak í húsnæðisuppbyggingu með stuðningi ríkisins, án þess að þess sæist stað í fjármálaáætlun sem birtist nokkrum dögum síðar. Og sama dag og hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir í fjárlögum í haust hélt sami innviðaráðherra blaðamannafund þar sem hann endurtók skilaboðin frá því í vor án þess þó að tölur í fjárlögum rötuðu þangað inn. Í viðtali við innviðaráðherra á Sprengisandi í gær kom fram að þetta snýst um 4.000 íbúðir á næstu fimm árum og 3.000 á ári næstu árin þar á eftir. Hann gaf vilyrði fyrir því að um 35% af uppbyggingunni yrði með aðkomu ríkisins. Þarna eru því um verulegar fjárhæðir að ræða.

Aðgerðirnar eru vissulega nauðsynlegar en ég spyr hæstv. ráðherra: Er það eðlilegt og samrýmist það lögum um opinber fjármál að gera ekki grein fyrir slíkum risaútgjöldum, sem sannarlega eru ekki vegna ófyrirséðra atvika? Hvernig á þingið, fjármálaráð og aðrir sem eiga að vega og meta áhrif fjárlaga á ríkisbúskapinn að sinna þessari skyldu þegar svona stóra breytu vantar inn? Það er bara vísað á bólginn varasjóð (Forseti hringir.) sem á reyndar heldur ekki að umgangast með þessum hætti.