Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

fjölgun hælisleitendamála.

[15:29]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er óhætt að taka undir það að ástandið er mjög erfitt um þessar mundir þegar kemur að innflytjendamálum eða flóttamönnum. Það er ágætt að hafa það samt í huga að álagið myndast auðvitað mjög mikið í kringum Úkraínustríðið, um helmingurinn af þeim sem koma hingað kemur frá Úkraínu og við erum öll sammála um að við viljum greiða þessu fólki leið eins og við mögulega getum. Það eru líka mjög fjölmennur hópur að koma frá Venesúela, um 20%. Þar skerum við okkur úr frá öðrum Evrópulöndum, að Spáni undanskildum. Ástæðan fyrir því, og það var rakið ágætlega hjá ríkislögreglustjóra, að þetta var sett á hættustig var ástandið í húsnæðismálum þar sem bæði skammtímaúrræði og langtímaúrræði voru mjög takmörkuð. Eitthvað hefur ræst úr samkvæmt fréttum helgarinnar í þeim efnum en það er samt áætlað að hingað geti komið allt að 4.500 manns á þessu ári og það verður mjög krefjandi verkefni að leysa það, sérstaklega þegar kemur að húsnæðisvandanum og félagslega vandanum. Ég hef orðað það sem svo að við, bæði þing og þjóðfélag, þurfum að spyrja okkur krefjandi spurninga um einmitt vegna hvers kemur fólk í svona miklum mæli til Íslands umfram þau lönd sem við erum að bera okkur saman við og starfa með. Svarið liggur að einhverju leyti í því að það þykir vænlegt að koma hingað vegna þess að þær reglur sem hér gilda eru rýmri og hér eru kannski betri aðstæður að mörgu leyti sem fólk á flótta hefur fengið.

Við þurfum að standa vörð um verndarkerfið. Það er auðvitað grundvallaratriði að fólk sé ekki að koma hingað og misnota verndarkerfið sem á laggirnar var sett af Sameinuðu þjóðunum á sínum tíma en verkfærin í verkfærakistunni til að draga úr þessu, þá á ég við lagaumhverfið, eru mjög takmörkuð. Frumvarpið sem kemur núna fram, vonandi í næstu viku, bætir eitthvað úr en það mun samt ekki valda neinum stórbreytingum (Forseti hringir.) þannig að áfram stöndum við frammi fyrir mjög krefjandi og ögrandi aðstæðum og við þurfum að svara krefjandi spurningum.