Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

fjölgun hælisleitendamála.

[15:33]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég fór yfir það hér áðan að lagaumhverfi okkar sem samþykkt var hér á þingi og var samið á tíma þegar aðstæður voru allt aðrar, á árunum í kringum 2016, gefur okkur mjög fá verkfæri til að bregðast við og fara eitthvað að takmarka komu fólks til landsins. Ég segi þess vegna að við þurfum að svara þessum krefjandi spurningum. Þetta frumvarp sem ég mun leggja fram, útlendingafrumvarpið, mun leysa úr ákveðnum hnútum, fáist það samþykkt, og það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að við afgreiðum þetta mál. En það er líka gríðarlega mikilvægt og grundvallaratriði að sá meiri hluti sem hefur verið hér á þingi fyrir því að ganga ekki jafnvel lengra í því að samræma okkar reglur og umhverfi við það sem þekkist á Norðurlöndunum til að mynda og víðast hvar hjá samstarfsþjóðum okkur í Evrópu — að það skuli ekki ná fram að ganga að við séum með sambærilega þjónustu, sambærileg úrræði og sambærilega móttöku eins og þekkist þar og við séum þá ekki að fá þennan aukna fjölda til okkar. Þetta eru spurningar sem við verðum að spyrja okkur á grundvelli þessa: (Forseti hringir.) Hvernig ætlum við að veita félagslega þjónustu þegar ekki bara félagslega kerfið er sprungið, heldur finnur skólakerfið, leikskólakerfið og heilbrigðisþjónustan fyrir þessu? (Forseti hringir.) Við erum sem samfélag að mínu mati að sigla inn í tíma þar sem við ráðum ekki (Forseti hringir.) við að veita þá þjónustu sem við eigum að veita og viljum veita.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir bæði hv. fyrirspyrjendur og ráðherra á að virða ræðutíma sem er takmarkaður í óundirbúnum fyrirspurnum, 2 mínútur í fyrra sinnið og 1 mínúta í síðara skipti.)