Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

þörf fyrir almennt vinnuafl.

[15:49]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er ljóst að það hafa orðið miklar breytingar á vinnumarkaði á síðustu árum og áratugum og það eru allar líkur á að svo verði áfram. Hagvöxtur og aukin umsvif eru umfram náttúrulega fjölgun innlends vinnuafls sem hefur í för með sér aukna þörf á innfluttu vinnuafli. Þróun síðustu áratuga er á einn veg. Fjölskyldur eignast færri börn og fleiri erlendir starfsmenn þurfa að flytja til landsins til að manna þau störf sem verða til. Áætlað er að störfum fjölgi um 15.000 á næstu fjórum árum samkvæmt mati Samtaka atvinnulífsins. Náttúruleg fjölgun vinnuafls er aðeins um 3.000 samkvæmt spá Hagstofunnar. Það þýðir að við þurfum aukalega um 12.000 manns á næstu árum. Þetta er sem sagt sá fjöldi fólks sem þarf að flytja til landsins til að uppfylla þessa þörf. Sem betur fer er það nú svo að Ísland er eftirsótt land og fólk vill gjarnan koma hingað, búa hér, vinna hér og taka þátt í samfélaginu. En það er ekkert ofboðslega auðvelt fyrir fólk að koma til Íslands. Ef viðkomandi er innan Evrópska efnahagssvæðisins er það auðvelt. En ef fólk býr utan Evrópska efnahagssvæðisins þá er eiginlega alveg vonlaust að koma til Íslands öðruvísi en þá að sækja hér um hæli eða vera flóttamaður. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann hyggst bregðast við þessari augljósu þörf sem er til staðar á næstu árum á vinnumarkaði hér á landi. Ég sé að hæstv. ráðherra hefur boðað frumvarp um að auðvelda erlendum sérfræðingum að flytja hingað til lands og ég fagna mjög því frumvarpi. En ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra sjái ekki ástæðu til að útvíkka það sem lagt er til í frumvarpi, út fyrir það sem kallast sérfræðingar og í bara almennt vinnuafl.