Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

þörf fyrir almennt vinnuafl.

[15:52]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina. En jú, það er meining þess sem hér stendur og ríkisstjórnarinnar að gera breytingar í þeim málaflokki sem hér er til umræðu, þ.e. varðandi atvinnuréttindi útlendinga. Í ríkisstjórnarsáttmálanum er kveðið á sérstaklega um fjögur verkefni sem að þessu lúta og við höfum núna eftir að ráðherranefnd um samræmingu mála er lúta að innflytjendum og flóttafólki sett á fót sérstakan undirhóp milli ráðuneyta með aðkomu Útlendingastofnunar og Vinnumálastofnunar sem er ætlað að vinna saman að því að koma þessum málum eins hratt og vel inn í þingið og hægt er. Og ástæðan fyrir því að við förum þá leið, og þessi hópur er leiddur af ráðuneyti mínu, er að aðgerðirnar í stjórnarsáttmála, plús jafnvel eitthvað fleira sem gæti komið upp, eru á ábyrgð mismunandi ráðherra, þriggja ráðherra, dómsmálaráðherra, mín og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Það frumvarp sem hv. þingmaður nefnir er þá kannski fyrsta skrefið sem við erum að horfa til. Inni í frumvarpi dómsmálaráðherra mun síðan verða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þ.e. atvinnuleyfi verða rýmkuð hvað það varðar.

En ég tek bara undir með hv. þingmanni að þetta eru mjög brýn mál að vinna og inn í þetta spilar líka að skoða betur og einfalda mat, t.d. á fyrra námi viðkomandi fólks. Það á við hvort sem fólk er innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins. En við erum sem sagt í þeirri vinnu m.a. að skoða hvað varðar rýmkun dvalarleyfa á grundvelli atvinnuþátttöku fyrir fólk sem er utan Evrópska efnahagssvæðisins.