Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

þörf fyrir almennt vinnuafl.

[15:54]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og fagna mjög því frumvarpi sem hér hefur verið boðað. Ég hlustaði á útvarpsviðtal um daginn við starfsmann sem starfar hjá stóru nýsköpunarfyrirtæki hér í borg. Starfsmaðurinn er í því alla daga að aðstoða við að sækja um leyfi fyrir erlenda sérfræðinga til að koma inn á vinnumarkaðinn. Meira að segja hjá stórum fyrirtækjum, þó að við höfum verið að reyna að einfalda þetta og ætlum að einfalda það meira, þarf heilan starfsmann til að standa í þessari vinnu, sem segir okkur auðvitað að þetta kerfi okkar er ofboðslega þungt, tekur tíma.

Ég sagði áðan að það myndi vanta 12.000 manns á næstu árum. Það er töluvert mikill fjöldi. Bara til að setja þetta í samhengi þá hafa 3.000 manns, eða hátt í það, sótt um vernd á Íslandi frá áramótum. Það er fólk sem er í ofboðslega misjafnri stöðu og er að flýja það ástand sem það kemur úr en það sækist í að koma hingað til Íslands. Ég hygg að margir þarna myndu einfaldlega vilja geta sótt um dvalarleyfi og atvinnuleyfi og hafið þátttöku í íslensku samfélagi. Ég velti því upp við hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hvort með því að opna frekar fyrir það og gera það eins hratt og kostur er (Forseti hringir.) auðveldum við okkur ekki líka að leysa vandamál sem hafa skapast annars staðar, þ.e. í menntakerfinu, þannig að við getum boðið allt þetta frábæra fólk sem hingað vill koma (Forseti hringir.) velkomið að taka þátt í samfélagi okkar.