Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[16:34]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágætt svar. Ég held kannski að meinið sé, eins og þetta horfir við mér, að ekki er verið að rífa kerfið upp með rótum heldur er verið að bútasauma í því hér og þar. Ég held að það sé kannski hluti af því sem orsakar áhyggjur margra af þróuninni fram undan. En mig langar í seinna andsvari að spyrja hæstv. ráðherra út í þær tekjur — nú er hækkun á gjaldi til Ríkisútvarpsins upp á 7,5%, eins og er að meginhluta yfir línuna. Ég er ekki búinn að finna það í frumvarpinu en af fréttum fjölmiðla að dæma fer stuðningur til einkareknu miðlanna niður um 2% í heildina. Kom ekki til skoðunar að hafa jafnvægi þarna á þannig að Ríkisútvarpið færi niður í heildartekjum um sem nemur sama hlutfalli og einkareknu miðlarnir horfa nú fram á? Síðan er annað mál hvort maður telur skynsamlega haldið á málum hvað stuðning til einkareknu miðlanna varðar.