Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[16:37]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Frumvarp þetta er að miklu leyti kynning á bandormi fyrri ára og það er miður. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að enn eitt árið mun frítekjumark öryrkja standa í stað. Frítekjumark öryrkja er tæpar 110.000 kr. á mánuði. Ef frítekjumark öryrkja myndi fylgja launa- og verðlagsþróun væri það talsvert hærri í dag en raun ber vitni. Þegar fjárhæðir standa í stað áratugum saman þá rýrna þær að raunvirði. Þetta hefur þær afleiðingar í för með sér að atvinnutekjur öryrkja skerðast nánast frá fyrstu krónu. Hvers vegna hækkar það ekki fyrst að hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að 7,7% hækkun virðist honum mjög þóknanleg, miðað við áætlaða verðbólgu í árslok? Hvers vegna í ósköpunum gildir það ekki einnig um öryrkja? Gæti það verið vegna þess að atvinnutekjur öryrkja skila sér kannski aðallega í útsvari, eða er einhver önnur ástæða fyrir því að hann telur ekki þurfa að hækka þetta frítekjumark?