Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[16:42]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langaði til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra nánar út í afsláttinn vegna rafmagnsbílanna. Ég er sjálf þeirrar skoðunar að það sé ekki tímabært að minnka stuðning vegna orkuskipta, að hvatar í þessa veruna séu fjárfestingar til framtíðar í þessu samhengi. Það sé okkar að halda áfram að styðja við orkuskiptin af fullum krafti af því að kostnaðurinn, held ég, við þessar loftslagsaðgerðir, þ.e. kostnaðurinn sem hlytist af því ef við hefðum haldið þessu áfram, er lítill í samanburði við stöðuna og skaðann sem við horfum fram á. Þannig að ég velti því fyrir mér: Hvernig fer þessi aðgerð saman við metnaðarfulla stefnu Íslands í þessum málaflokki, loftslagsmálum, og um aukinn kraft í orkuskiptum?