Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[17:41]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Áður en ég vík að efnisatriðum þessa frumvarps vil ég vekja athygli á breytingartillögu sem ég hef lagt fram sem snýst um að fella niður verndartoll á franskar kartöflur, toll sem verndar ekkert og engan eftir að Þykkvabæjar ehf. hætti framleiðslu. Þetta er 76% tollur, hæsti prósentutollur á matvöru í íslensku tollskránni, gamaldags tekjuöflun sem bitnar á neytendum og samkeppni. Ég vonast eftir breiðum stuðningi við þessa tillögu, sérstaklega frá flokkum sem tala fyrir frjálsum alþjóðaviðskiptum.

Nú ræðum við hér um fjárlagabandorm ríkisstjórnarinnar vegna fjárlagaársins 2023 og ég held að mikilvægt sé að huga að samhengi hlutanna og efnahagsástandinu. Það hefur margt gengið gríðarlega vel á Íslandi en staðan er samt þannig núna að fjöldi heimila er í vandræðum. Fjöldi fólks er einfaldlega í fjárhagskröggum vegna hækkandi verðbólgu og hækkandi vaxta og við eigum ekkert að fara í neinar grafgötur um það hér á Alþingi. Kaupmáttur launa hefur farið rýrnandi undanfarna mánuði, greiðslubyrði af húsnæðislánum hefur rokið upp og kostnaður af rekstri heimilis hjá dæmigerðri barnafjölskyldu hefur hækkað um tugi þúsunda á örfáum mánuðum. Þriðjungur launafólks á erfitt með að ná endum saman samkvæmt könnun sem Varða – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins framkvæmdi í fyrra og nýleg könnun sem fyrirtækið Prósent vann fyrir Fréttablaðið rennir enn frekari stoðum undir að þannig sé staðan. Þar kemur fram að hjá þeim sem eru með undir 400.000 kr. í heimilistekjur á mánuði eigi tæplega átta af hverjum tíu ekkert eftir í veskinu í lok mánaðar. Ójöfnuður samkvæmt Gini-stuðlinum er farinn að aukast milli ára og hlutfall þeirra sem búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað fer hækkandi.

Þetta er bara það sem gögnin segja okkur, til að mynda gögn Hagstofunnar, og við getum alveg fagnað því sem hefur gefist vel á Íslandi án þess að loka augunum fyrir því að nú er fjöldi heimila í vandræðum. Það er skylda okkar hér á Alþingi, okkar sem förum með fjárstjórnarvald ríkisins, stjórnarmeirihlutans, að bregðast við þessari stöðu. Í svona árferði á þenslutímum, þegar verðbólgan er mikil og vextir leita upp, er hlutverk ríkisfjármálanna tvíþætt. Annars vegar er stóra verkefnið að verja tekjulægstu og viðkvæmustu hópana fyrir verðbólgunni og þeim hröðu breytingum sem eiga sér stað á vaxtastigi í landinu, það verður best gert með tekjutilfærslukerfunum okkar. Hitt stóra verkefnið er að kæla hagkerfið, að draga úr umsvifum og herða á aðhaldsstiginu til að ná verðbólgunni niður. Við getum nefnilega ekki látið Seðlabankann einan um það verkefni. Það myndi bara skila sér í enn harðara aðhaldi á sviði peningastefnu, enn skarpari stýrivaxtahækkunum sem bitna verst á skuldsettum heimilum, m.a. á ungu fólki og jafnvel tiltölulega tekjulágu fólki sem þó skreið í gegnum greiðslumat á tímum heimsfaraldurs þegar vextir voru sögulega lágir og þegar ríkisstjórnin gaf fólki í raun óraunhæfar væntingar um að við værum að sigla inn í varanlegt lágvaxtaumhverfi.

Þetta eru verkefnin tvö og það hversu vel ríkisstjórnin mætir þessum tveimur áskorunum hlýtur að vera mælistikan sem við leggjum á þennan fjárlagabandorm. Hvernig verða tekjulægstu hóparnir varðir fyrir verðbólgunni? Ætlar ríkisstjórnin t.d. að beita vaxtabótakerfinu til að styðja við lágtekju- og millitekjuheimili sem glíma við mikla greiðslubyrði núna? Svarið er nei. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa látið vaxtabótakerfið drabbast niður á undanförnum árum og í staðinn aðallega beint húsnæðisstuðningnum til tekjuhæstu heimilanna í formi skattfríðinda og þessi fjárlagabandormur felur ekki í sér neina breytingu á því nema síður sé. Ef við grípum hér niður á bls. 18 í greinargerð stendur: „Mikil hækkun fasteignamats ásamt hærri tekjum mun leiða til aukinna skerðinga á árinu 2023 og mun hækkun vaxta hafa takmörkuð áhrif vegna mikilla skerðinga.“

Þannig er þetta. Í dag er staðan þannig að vaxtabætur byrja að skerðast við 5 millj. kr. í eigið fé, það eru 8 millj. kr. hjá hjónum, og falla alveg niður við 8 millj. kr. hjá einstaklingi, 12,8 millj. kr. hjá hjónum, sem þýðir auðvitað, í ljósi fasteignaverðsþróunar undanfarinna ára, að vaxtabótakerfið léttir í raun bara undir með heimilum í einhvers konar jaðartilvikum. Ef við viljum styðja við fólkið sem er með lágan tekjustofn og verður þannig ekki fyrir miklum skerðingum vegna teknanna en hefur eignastofn sem er nálægt efri mörkum eignaskerðingarinnar í vaxtabótakerfinu er auðvitað borðleggjandi að hækka skerðingarmörkin. Það er hægt að gera það tímabundið þótt ekki væri nema bara til að þoka þeim aðeins í humátt á eftir fasteignaverðshækkunum undanfarinna ára. Þessi mörk hafa nefnilega staðið í stað síðan 2018. Hér þyrfti þá að huga sérstaklega að möguleikum heimila sem er í mikilli neyð vegna hækkandi greiðslubyrði, kannski með fyrirframgreiðslu af einhverju tagi. Þetta er eitthvað sem væri hægt að gera. Önnur leið sem væri hægt að horfa til í svona árferði er að ráðast í sértæka vaxtaniðurgreiðslu með svipuðum hætti og var gert árin 2011 og 2012. Þetta var niðurgreiðsla sem nam 0,6% af skuldum vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota, var tekju- og eignatengd, gat hæst orðið 200.000 kr. hjá einhleypingi og 300.000 kr. hjá hjónum. Ég nefni þetta dæmi bara til að benda á að það eru fordæmi fyrir því að vaxtabótakerfið sé tekið og því beitt mjög markvisst til að styðja við fólk í viðkvæmri stöðu og til að dempa höggið vegna hraðra vaxtabreytinga. En ekkert slíkt er að finna í þessum fjárlagabandormi, það á bara áfram að láta vaxtabótakerfið drabbast niður.

Hvað með barnabæturnar? Jú, jú, það er alltaf talað um barnabótaauka frá því fyrr á árinu en verðbólgan er búin að éta hann upp að miklu leyti. Í þessum fjárlagabandormi standa barnabætur í stað milli ára, þ.e. þær rýrna að raunvirði vegna verðbólgunnar, og það virðist bara ekki vera pólitískur vilji hjá þessum stjórnarmeirihluta að beita tilfærslukerfunum okkar til að verja lágtekju- og millitekjufólk í vetur, því miður. Þannig er staðan. Þessi fjárlagabandormur staðfestir það.

Greiðslur almannatrygginga fylgja verðlagi, sem er mikilvægt, en ríkisstjórnin hróflar hins vegar ekkert við skerðingarkerfi almannatrygginga. Það verður áfram þannig á Íslandi að eldri maður eða eldri kona sem greitt hefur í lífeyrissjóð alla ævi, safnað sér réttindum upp 150.000 kr. úr lífeyrissjóði á hverjum mánuði, þarf að greiða 67% jaðarskatt af þeim lífeyristekjum þegar farið er á eftirlaun. Af 150.000 kr. lífeyrisréttindum sitja þannig aðeins 50.000 kr. eftir sem auknar ráðstöfunartekjur í hverjum mánuði en hinar 100.000 kr. renna til ríkisins vegna skatta og skerðinga. Þetta ósanngjarna skerðingarkerfi, þar sem hver króna frá lífeyrissjóði eftir 25.000 kr. frítekjumarkið kemur til skerðingar á greiðslum almannatrygginga, stendur óbreytt í þessum fjárlögum og fjárlagabandormi og líka óbreytt í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þau virðast ekki hafa uppi nein áform um að breyta þessu. Frítekjumörkin eru auðvitað ekki verðbætt, ekki með sama hætti og gjöldin í þessu frumvarpi, hvorki frítekjumarkið hjá öryrkjum né frítekjumarkið hjá öldruðum. Það er reyndar allur gangur á því hvort hlutirnir séu verðbættir en eitt sem er verðbætt og verðtryggt alveg í botn eru flötu gjöldin sem leggjast á almenning.

Þetta er nefnilega fyrst og fremst gjaldafrumvarp. Ég veit ekki hvað hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagði orðið „gjald“ oft hér áðan. Það hefði verið gaman að telja það í ræðu hans. Förum aðeins yfir þetta: Hæstu áfengisgjöld í Evrópu hækka um 7,7%, og höfum í huga að sú hækkun leggst þyngra á ódýrari tegundir vegna þess að áfengisgjaldið er föst krónutala sem leggst á áfengismagn. Fólkið sem kaupir dýrari tegundirnar mun finna minna fyrir þessari gjaldahækkun ríkisstjórnarinnar. Tóbaksgjöld 7,7%, kolefnis- og eldsneytisgjöld hækka um 7,7%, bifreiðagjöld hækka um 7,7%, kílómetragjöld hækka um 7,7% — þetta eru skattar sem lenda þyngst á tekjulægstu hópunum og ég þreytist ekki á að segja það aftur og aftur í ræðustól. Þetta skiptir máli og þarna á að kroppa milljarða af lágtekju- og millitekjufólki. Það er skattapólitíkin í þessum fjárlagabandormi. Svo lekur þetta beint út í vísitölu neysluverðs, við vitum það, hækkar hana um 0,2%, eykur þannig á erfiðleika skuldsettra heimila með vísitölutengda leigusamninga o.s.frv. Hér er ríkisstjórnin að gera tilraun til að vinna gegn verðbólgunni með aðgerðum sem ganga algerlega í berhögg við hitt stóra verkefnið sem ég nefndi hér áðan, sem er að verja tekjulægstu hópana fyrir verðbólgunni.

Hæstv. fjármálaráðherra talaði áðan um það sem einhvers konar dyggð að á undanförnum árum hefðu krónutölugjöld fylgt verðbólgumarkmiði Seðlabankans frekar en verðlagsvísitölu, þ.e. hækkun verðlagsvísitölu neysluverðs. En hvernig stendur á því að það er einmitt þegar verðbólgan er mest, jafnvel þreföld á við það sem áður var, sem vikið er frá þessari venju? Tökum eftir því. Þetta er kannski stóra spurningin sem við höfum ekki fengið svör við í dag: Hvers vegna vill ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur endilega að fólkið sem finnur mest fyrir verðbólgunni og finnur mest fyrir vaxtahækkunum beri eiginlega allan herkostnaðinn af stríðinu gegn verðbólgunni og þenslunni? Þetta er stóra spurningin og um þetta snýst pólitíkin í þessu frumvarpi og pólitísku línurnar í þessum sal þessa dagana.

Einu svörin sem fengist hafa frá hæstv. fjármálaráðherra eru þau að sveitarfélög séu líka að hækka sínar gjaldskrár. Nú eru 64 sveitarfélög í landinu, er það ekki? Þau hafa ekki hagstjórnarlegar skyldur á sama hátt og ríkið og Seðlabankinn. Þau hafa líka yfir ósköp takmörkuðum tekjustofnum að ráða og það er viðfangsefni löggjafans hvar sveitarfélög geta sótt sér tekjur. Sveitarfélög geta t.d. ekki innheimt veiðigjöld. Þau geta ekki lagt sérstakt álag á veiðigjöldin sem hæstu útgerðirnar greiða. Það getur ríkið hins vegar gert. Sveitarfélög geta ekki lagt á einhvers konar hvalrekaskatta. Þau geta ekki hækkað bankaskatt, þau geta ekki innheimt fjármagnstekjuskatt. Það getur ríkið hins vegar gert. Það ákveður ríkisstjórnin að gera ekki því að það er lágtekju- og millitekjufólkið sem á að taka á sig aðhaldið og bera herkostnaðinn.

Virðulegur forseti. Ég vil bara rétt að lokum, fyrst ég hef tvær mínútur til stefnu, víkja að atriðum sem hafa aðeins komið til umræðu hér á Alþingi í dag og í fjölmiðlum, og það eru áform um breytingar á skattlagningu fjármagnstekna og þeirra sem greiða sér miklar fjármagnstekjur en ekki launatekjur. Þarna eru uppi hugmyndir um að láta eitthvað renna til sveitarfélaga frá þessum hópi. Ég vildi bara koma því að hér að ég held að þegar kemur að breytingum á fjármagnstekjuskattsstofninum og skattlagningu fjármagnstekna væri affarasælast að fara svipaða leið og Norðurlöndin þegar kemur að sjálfstætt starfandi fólki með atvinnurekstur í eigin nafni, og það er að skilgreina fjármagnstekjur á grundvelli eigna atvinnurekstursins og viðbúinni ávöxtun og skattleggja svo restina sem laun. Eitthvað í þessa veru gæti skilað ríkissjóði 3–8 milljörðum að mati hagdeildar Alþýðusambands Íslands og sú aukna skattbyrði myndi öll lenda á efstu tekjutíundinni. Ég held að við eigum að nota hugmyndaflugið þegar kemur að tekjuöflun í dag, ekki hækka sífellt gjöld á hópana sem geta síst af öllum borið þau, staðið undir þeim, sömu hópana og finna mest fyrir verðbólgunni og mest fyrir vaxtahækkunum.