Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Nú þegar á fimmta ár er liðið af valdatíð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sýna allar mælingar árangur af störfum þeirrar ríkisstjórnar en ekki þeirrar fyrri. Þannig að þegar bráðabirgðatölur Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda birtust fyrir helgi þá sést þar árangur ríkisstjórnarinnar, eða öllu heldur árangursleysi þeirrar stefnu sem hér hefur verið rekin síðustu ár. Losun gróðurhúsalofttegunda jókst á Íslandi um 3% á milli áranna 2020–2021. Þetta er skýrt merki þess að ríkisstjórnin lagði ekki grunn að grænni viðspyrnu samfélagsins þegar Covid lyki. Þetta sýnir svart á hvítu að ríkisstjórnin nýtti ekki árin á undan til að gera raunverulegar eða varanlegar breytingar á grunnkerfum samfélagsins í þágu grænna umskipta. Ef við skoðum bara það sem samið hefur verið um við Evrópusambandið og kallast losun á beinni ábyrgð stjórnvalda þá er líka hækkun þar. Ísland kemst rétt undir mörk þess sem samið hafði verið um sem miðaði við 40% metnað fyrri ríkisstjórnar, en nú segist hún vera með 55% metnað þannig að hún er kolfallin á eigin prófi fyrsta ár í embætti eftir síðustu kosningar. Hér kristallast það vandamál sem fylgir stefnuleysi ríkisstjórnarinnar. Það dugar ekki að bíða bara og vona heldur þarf að gera. Þess vegna svelgdist mér dálítið á kaffinu þegar ég las Morgunblaðið í morgun og grein matvælaráðherra undir yfirskriftinni „Dýrkeypt áhugaleysi“, þar sem hún var ekki að lýsa dýrkeyptu áhugaleysi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum heldur einhverra annarra ríkisstjórna og annarra þingmanna. Áhugaleysi stjórnarflokkanna í dag var mælt fyrir ári. Tveir þeirra höfðu 13% og 21% áhuga á loftslagsmálum samkvæmt mælingu ungra umhverfissinna. (Forseti hringir.) Það er dýrkeypt áhugaleysi að hleypa þeim að völdum. (Forseti hringir.) Ráðherrann sagði að við þyrftum að sýna hugrekki í verki með því að taka djarfar ákvarðanir og það hratt. (Forseti hringir.) Er þessi ráðherra í sömu ríkisstjórn (Forseti hringir.) og gerir einmitt ekki þetta? Gerir hlutina of hægt og (Forseti hringir.) of ódjarft. (Forseti hringir.) Það er mál að linni, herra forseti.

(Forseti (BÁ): Það er mál að linni. [Hlátur í þingsal.] Hv. þingmaður fór hálfa mínútu fram yfir ræðutíma sem þingsköp heimila fyrir ræður undir liðnum störf þingsins.)