Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Berglind Harpa Svavarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í þessari viku mun ég leggja fram þingsályktunartillögu mína frá síðasta þingi. Hún varðar nauðsynlega fjármögnun á tækjakosti til bráðagreiningar á heilsugæslunni á Egilsstöðum. Læknavísindin í dag ganga út á öfluga tækni til að hægt sé að veita sem besta heilbrigðisþjónustu hverju sinni. Þetta gildir um alla landsmenn en eins og við vitum er sérhæfð heilbrigðisþjónusta staðsett í Reykjavík, og það er byggt á góðum rökum. En um leið og ég segi það er það lágmarkskrafa að heilbrigðisstarfsfólki á landsbyggðinni sé tryggður nauðsynlegur tækjakostur hverju sinni. Mönnunarvandi lækna á landsbyggðinni er oft nefndur og ýmsar hugleiðingar eru um það af hverju hann stafar. En ef aðstæður eru þannig að hvorki tækni né fullnægjandi tækjakostur er til staðar í þeirra vinnuumhverfi svo fjarri Landspítalanum þá skil ég vel að læknar hugsi sig tvisvar um að starfa við þær aðstæður. Líf og heilsa fólks er undir því komin að rétt upplýst viðbrögð séu viðhöfð hverju sinni á sem skemmstum tíma. Það sárvantar slíkan tækjakost á bráðamóttökuna á Egilsstöðum, í sveitarfélagi sem er um 10% af heildarflatarmáli landsins og þrír fjallvegir á leið fólks að þjónustunni. Svo þegar þangað er komið vantar tækjakostinn til að bjarga lífi þeirra og heilsu og við erum að tala um árið 2022.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna einnig afar takmarkaðan aðgang að sérfræðiþjónustu á Austurlandi. Sækja þarf nánast alla sérfræðiþjónustu suður með tilheyrandi kostnaði. Hugsið ykkur allan fjöldann, unga sem aldna, sem þarf að ferðast suður. Hvað með allt eldra fólkið sem treystir sér ekki í það ferðalag heilsu sinnar vegna? Í dag er árið 2022. Búum til hvata fyrir sérfræðinga til að sinna landsbyggðinni, nýtum tæknina og öflugan tækjakost í heilbrigðisþjónustu sem leiðir til öflugrar þjónustu í heimabyggð og hefur í för með sér gríðarlegan sparnað sem endurspeglast í færri sjúkraflugum vegna vissu um heilbrigðisástand fólks, færri niðurgreiddum læknisferðum suður — og almenningur getur eytt fjármunum sínum í annað en rándýrt flug og haldið heilsu sinni og lífsgæðum.